Fréttir

Birgir Guðnason jarðsunginn
Meðfylgjandi ljósmynd var tekin þegar kista Birgis var borin úr Keflavíkurkirkju fyrr í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 22. september 2016 kl. 14:28

Birgir Guðnason jarðsunginn

Útför Birgis Guðnasonar málarameistara var gerð frá Keflavíkurkirkju í dag. Birgir lést þann 11. september sl. á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en hann fæddist 14. júlí 1939 í Reykjavík.

Foreldrar Birgis voru Jóna Jónsdóttir frá Stapakoti og Guðni Magnússon málarameistari úr Garðabæ. Stjúpa Brigis var Hansína Kristjánsdóttir.

Birgir kvæntist 3. október 1959 Hörpu Þorvaldsdóttur frá Vestmannaeyjum. Þau eignuðust fimm börn, Jónu Björk, Sóley, Börk, Ösp og Burkna.

Með minningargreinum í Morgunblaðinu í dag er skrifað um Birgi: Birgir fæddist veikburða enda einungis sjö merkur og dvaldi á Fæðingarheimili Reykjavíkur á fjórða mánuð en móðir hans lést af barnsfararsótt fjórum dögum eftir fæðingu hans. Hann ólst upp í Keflavík hjá föður, systkinum og stjúpu á Suðurgötu 35. Birgir hóf byggingu eigin húsnæðis að Hringbraut 46, 18 ára gamall, þau Harpa bjuggu fyrstu tvö árin á Ásabraut 1 en fluttu þá á Hringbraut þar sem þau bjuggu síðan. Birgir stundaði málaranám hjá föður sínum, lauk sveinsprófi 1959, stundaði nám við Aalborg tekniske Skole 1962-64 og lauk meistaraprófi í málaraiðn 1964 og bílamálun 1965. Birgir vann við bíla- og húsamálun frá 1965 í Keflavík, það ár stofnaði hann fyrirtæki sitt BG Bílasprautun sem síðar fékk nafnið BG Bílakringlan sem hann rak til 2011. Hann gegndi nefndarstörfum og sat í stjórn ýmissa félaga, má þar nefna Iðnaðarmannafélag Suðurnesja, Bæjarstjórn Keflavíkur, Faxa, Kaupfélag Suðurnesja, Bílgreinasambandið, byggðasafnsnefnd, byggingarnefnd Kirkjulundar og sóknarnefnd Keflavíkurkirkju. Hann var virkur félagi í Rotaryklúbbi Keflavíkur frá 1970 til dauðadags. Áhugi á listum fylgdi Birgi alla tíð og vann hann ötullega að því að koma Listasafni Erlings Jónssonar á laggirnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024