Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bíræfnir vélhjólamenn tæta upp ósnortna náttúru
Fimmtudagur 6. desember 2007 kl. 11:20

Bíræfnir vélhjólamenn tæta upp ósnortna náttúru

Utanvegaakstur hefur færst mikið í vöxt á Reykjanesskaga síðustu misseri og má segja að sprenging hafi orðið þegar hafið var að gefa út leyfi fyrir fjórhjól í sumar. Landeigendur og lögregla standa ráðþrota gegn miklum fjölda vélhjóla- og fjórhjólafólks sem virðir bönn og tilmæli að vettugi og veldur gríðarlegum skemmdum á viðkvæmum svæðum vítt og breitt um skagann.


Landeigendur á svæðunum austur af Grindavík, Þórkötlustaðahverfi, Hrauni og Ísólfsskálalandi eru sérstaklega óánægðir með framgöngu hjólamanna. Þeirra á meðal er Gísli Sigurðsson sem kallar eftir því að lögregla fái heimildir til að taka hjól eignarnámi.


„Við vorum lengi búnir að vera í vandræðum með þetta, en ákváðum að setja upp skilti meðfram vegum þar sem stóð að utanvegaakstur væri bannaður. Viðbrögðin við því urðu þau að skiltunum var stolið og við höfum þurft að láta prenta ný. Þetta er alveg hrikalegt því sárin geta orðið að uppblæstri. Nú er sauðkindin loksins farin af svæðinu en þá koma hjólin bara í staðinn.“

 

Landvernd hefur barist fyrir að vernda ósnortna náttúru á Reykjanesskaga og Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri, segir ástandið óþolandi. „Það er lögleg braut til staðar við Sólbrekkur þannig að það er vissulega komið til móts við þetta fólk, en það eru greinilega svartir sauðir innan um. Það skortir hins vegar úrræði og það þyrfti að vera meira eftirlit og löggæsla á svæðinu.“

 

Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, þekkir málið vel og segir mikla aukningu hafa verið á utanvegaakstri. „Þetta stórjókst eftir að fjórhjólin komu og það verður að segjast eins og er að lögreglan á erfitt með að hemja þetta. Við höfum hvorki mannskap né útbúnað til að elta þá upp á fjöll, en höfum þó staðið nokkra að verki og náð þeim með aðstoð landeigenda.“ Sigurður segir að fyrst og fremst sé þörf á hugarfarsbreytingu hjá þessum hluta vélhjólafólks. Mörg lokuð svæði eru til staðar þar sem vélhjólafólk getur ekið að vild, en utanvegaakstur er annars bannaður í öllum tilfellum nema með leyfi landeigenda.

Mynd: Víða eru ljót sár í náttúru Reykjanesskaga eftir utanvegaakstur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024