Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bíræfnir innbrotsþjófar í Keflavík
Fimmtudagur 26. febrúar 2004 kl. 16:29

Bíræfnir innbrotsþjófar í Keflavík

Að undanförnu hafa bíræfnir þjófar farið inn á ólæst heimili í Keflavík og látið þar greipar sópa á meðan heimilisfólkið er í fastasvefni. Tvö tilvik hafa verið kærð til lögreglu þar sem fartölvum hefur verið stolið um hábjartan dag úr fyrirtækjum í Keflavík. Lögreglunni í Keflavík var tilkynnt um þjófnað úr einbýlishúsum í gær þar sem stolið hafði verið veskjum með peningum og greiðslukortum. Tvö húsanna eru við Suðurvelli og eitt við Norðurgarð. Ekki er sjáanlegt að brotist hafi verið inn í húsin og að sögn Jóhannesar Jenssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns virðist sem þjófurinn hafi gengið á hús og farið inn þar sem ólæst hefur verið. Á mánudagskvöld var fartölvu stolið af heimili og virðist þjófurinn hafa farið inn í húsið á meðan heimilisfólkið var heima. Í gær var fartölvu stolið úr skrifstofuhúsnæði við Hafnargötuna og virðist sem þjófurinn hafi tekið tölvuna um hábjartan dag, á meðan starfsfólk var enn við vinnu. Jóhannes segir mikilvægt fyrir fólk að læsa húsum sínum og jafnvel meðan það sé heima. „Fólk verður að huga betur að eigum sínum og lögreglan vill hvetja fólk til að læsa bæði heimilum sínum og bifreiðum.“

Í frétt Víkurfrétta frá því í byrjun febrúar er greint frá því að í nóvember, desember og janúar hafi tæplega 100 innbrot og þjófnaðir verið kærðir til lögreglunnar í Keflavík. Nýverið voru fjórir ungir menn leiddir fyrir dómara hjá Sýslumanninum í Keflavík þar sem þeir eru sakaðir um að hafa átt þátt í fjölda innbrota á Suðurnesjum síðustu mánuði.

 

 

 

 

 

 

 

VF-Ljósmyndir: Á myndunum má sjá þrjá af þeim fjórum aðilum sem leiddir voru fyrir dómara hjá Sýslumanninum í Keflavík fyrir stuttu vegna innbrota á Suðurnesjum.

Frétt Víkurfrétta frá því í byrjun mánaðarins
Þrír til fjórir aðilar á tvítugsaldri hafa síðustu mánuði brotist inn á heimili og í fyrirtæki í Reykjanesbæ. Mennirnir koma við sögu í nokkuð mörgum málum sem lögreglan í Keflavík hefur upplýst.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Keflavík hafa tæplega 100 þjófnaðir og innbrot verið kærð til lögreglunnar á síðustu þremur mánuðum. Um er að ræða innbrot á heimili og í fyrirtæki, þjófnað úr bifreiðum og frá fólki á veitingahúsum svo eitthvað sé nefnt.
Á sama tímabili hefur sjö bifreiðum verið stolið í Reykjanesbæ, en auk þess hafa nokkrar bifreiðar sem stolið hefur verið í öðrum sveitarfélögum fundist í umdæmi lögreglunnar í Keflavík.
Að sögn Karls Hermannssonar yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Keflavík hafa innbrot og þjófnaðir aukist á Suðurnesjum á síðustu misserum. Segir Karl aukninguna hér haldast í hendur við aukningu á höfuðborgarsvæðinu. Karl segir að skýringa á aukningu innbrota og þjófnaða sé að finna vegna harðari heims fíkniefnaneytenda. „Það er rétt að hvetja fólk til að huga vel að eigum sínum, læsa húsum sínum og skilja ekki bifreiðar eftir með lyklunum í. Oftar en ekki er þjófum gert auðvelt fyrir með kæruleysi hús- og bíleigenda,“ sagði Karl í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024