Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bíódagar Davíðs á enda
Fimmtudagur 6. janúar 2005 kl. 16:51

Bíódagar Davíðs á enda

Síðastliðin 10 ár hefur Nýja Bíó í Keflavík verið rekið af Davíð Smára Jónatanssyni en um áramótin tók Ingiber Ólafsson við rekstrinum. Undir handleiðslu Davíðs hefur aðsókn að Nýja Bíó aukist mikið og hafa verið gerðar miklar breytingar á kvikmyndasölum.
„Þetta byrjaði mjög rólega. Það var bara einn salur og svalirnar voru eins og margir muna eftir þeim. Það voru sýningar 3 til 4 kvöld í viku og það þýddi ekkert að hafa sýningar þegar Hemmi Gunn var með sinn þátt í sjónvarpinu á miðvikudagskvöldum - það kom enginn," segir Davíð Smári og brosir.

Árið 1998 var tekin ákvörðun um að fara í miklar breytingar á bíóinu. „Það var öllu rústað og salnum var mikið breytt. Frá þeim breytingum hefur uppgangurinn verið mikill - aukningin fyrstu tvö árin var um 300%. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að taka Bergás í gegn og bæta þar við sal," segir Davíð en fyrsta myndin sem hann sýndi í Nýja Bói fyrir 10 árum var I love trouble með Juliu Roberts og Nick Nolte. „Ég hef verið mjög ánægður og bara liðið mjög vel hér í bíóinu. „Núna vorum við að slá smiðshöggið á endurnýjunina á bíóinu. Fyrir jólin skiptum við um sæti í Sal 1 hjá okkur og er bíóið orðið eitt það besta að mínu mati."

Davíð er mikill áhugamaður um kvikmyndir en hvað gerir góða kvikmynd að hans mati?
Fyrst og fremst gott handrit. Það er mjög pirrandi að horfa á tæknilega góða mynd með slakan söguþráð - það fer illa með annars góða vinnu.

Hvernig er að setja sýningarvélina í gang þegar um lélegar myndir er að ræða?
Það skiptir mjög  litlu fyrir mig. Þegar ég er í vinnunni horfir ég mjög  lítið út í sal nema ef mér langar að sjá viðkomandi mynd. Mér finnst skipta mestu máli að fólkið sem kemur í bíó hafi gaman af myndinni, eins og við vitum er smekkur fólks mjög misjafn.

Hvaða mynd hefur fengið mesta aðsókn í bíóinu?
Ég held að aðsóknarmesta myndin sé Harry Potter og leyniklefinn. Englar Alheimsins kom mjög vel út af þeim íslensku og teiknimyndirnar hafa verið mjög sterkar.

Ertu með einhverja fasta kúnna?
Það er mikið af fólki sem kemur reglulega. Ákveðinn hópur fer á ákveðnar myndir. Maður veit að þegar maður tekur listrænar myndir þá koma kunnugleg andlit og þegar maður tekur spennumynd inn þá sér maður manneskjur sem koma einungis á slíkar myndir.

Eftirminnilegt atvik á meðan á sýningu stóð?
Við vorum með sýningu fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í lokaatriði myndarinnar var bygging sem var að brenna. Á þeirri stundu rann myndin út af plattanum og filmubúturinn brann. Þegar filmar var að brenna á skjánum þá hélt fólk að þetta væri partur af myndinni. Við snöruðum myndinni af stað aftur en þetta var nokkuð skondið atvik. Síðan hugsa ég oft til litlu stelpunnar sem fór að hágráta þegar ég reif bíómiðann hennar sem hún var nýbúin að kaupa.

En hvað er Davíð að fara að gera?
Nú ætla ég bara  vinna eina vinnu. Ég vinn líka hjá Flugleiðum og hef verið í tveimur störfum í 10 ár. Það er eiginlega kominn tími til að minnka þetta aðeins. Ég fann þó til söknuðar um daginn þegar við skiptum  um sæti í bíóinu. Ég kíkti aðeins inn í sal og og fékk mér sæti til að máta mig við salinn. Fór að hugsa að loksins þegar ný sæti eru komin þá fer maður.

Heldurðu að þú eigir eftir að fara oft í bíó?
Jú, ég held það. Mér finnst alltaf gaman að fara í bíó og ég hef verið heimagangur í þessu bíói frá því ég flutti til Keflavíkur 6 ára gamall. Mér hefur alltaf liðið vel í þessu húsi.

Kveðurðu sáttur?
Já, það geri ég. Ég er mjög ánægður með að klára það sem ég ætlaði mér, að gera bíóið gott. Það síðasta sem var á óskalistanum var að fá ný sæti og ég lít á það sem kveðjugjöf.

Uppáhaldskvikmyndin þín?
Það er ein mynd sem ég hef alltaf reynt að horfa á fyrir jólin og það er gömul James Stewart mynd - It´s a wonderful life. Casablanca fannst mér frábær og nú eru það Lord of the Rings myndirnar, enda hverjum finnst þær ekki góðar. Það má reyndar ekki sleppa að nefna fyrstu Matrix myndina. Þegar ég sá hana vissi ég ekkert um hana. Kom verulega á óvart, það eru ekki margar myndir sem gera það.

Næsta kvikmynd sem þú ætlar að sjá?
Ég hugsa að ég fari á Í takt við tímann. Ég sá smá brot úr henni um daginn og leist mjög vel á.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024