BÍLÞJÓFUR Á OFSAHRAÐA Á GRINDAVÍKURVEGI
				
				Lögreglan í Keflavík handsamaði bílþjóf á hlaupum í Grindavík undir morgun á þriðjudag. Tilkynnt var um nytjastuld á bifreið um kl. 06.Lögreglubifreið var á eftirliti og mætti hún stolna bílnum á móts við Seltjörn og gaf honum þar stöðvunarmerki. Bifreiðinni var hins vegar snúið við á bílastæði við Reykjanesbrautina og ekið aftur á ofsahraða til Grindavíkur. Lögreglan    fylgdi bílnum eftir en hafði hæfilegt bil á milli bílanna þar sem stolna bifreiðin var á mjög mikilli ferð og aðstæður til aksturs voru slæmar. Í Grindavík var bifreiðinni ekið á fiskikar þar sem hún stöðvaðist. Þá hljóp ökumaðurinn út úr bílnum en lögreglumenn höfðu upp á honum og færðu til stöðvar þar sem hann var settur í steininn. Yfirheyrslur áttu að fara fram á þriðjudag en ökumaðurinn er grunaður um ölvun.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				