Bílstjóri og farþegi hlupu út úr brennandi strætó - myndir og myndskeið
Eldur kom upp í strætóbifreið frá Bus4u þegar hann var á leið vestur Flugvallarveg í Reykjanesbæ skömmu eftir hádegi í dag. Ökumaður og farþegi sluppu ómeiddir en vagninn er ónýtur.
Rútubílstjórinn fékk ábendingu frá eina farþeganum í bílnum sem sagði mikinn reyk koma aftan úr vagninum. Bílstjórinn brást snöggt við og stöðvaði vagninn framan við Reykaneshöllina þar sem ökumaður og farþegi gátu yfirgefið brennnandi bílinn. Mikill eldur kom út úr vél vagnsins sem er aftast í honum. Rúður sprungu út af eldi og hita og stóðu eldtungurnar langt út úr vagninum. Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja komu fljótt á staðinn og réðu niðurlögum eldsins fljótlega.
Að sögn Sævars Baldurssonar, eiganda Bus4u er ekki vitað um orsök eldsins en hann sagði vagninn ónýtan.