Bílstjóri án grímu þrátt fyrir áréttingar Strætó
Borið hefur á því að ekki sé farið eftir grímuskyldu um borð í vögnum Strætó sem aka til og frá Suðurnesjum. Bílstjóri á leið 55, sem ekur milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkur, bar t.a.m. ekki grímu við akstur vagnsins í hádeginu í dag. Í leiðbeiningum Embættis landlæknis segir að sérstaklega er mikilvægt að nota grímu í rútum frá flugvelli eftir sýnatöku á landamærum og á lengri leiðum með hópferðabílum.
„Við höfum verið í sambandi við Hópbíla varðandi þetta. Við þurfum að halda áfram að hamra á þessu. Við fengum ábendingu um svona tilvik fyrr í vikunni og við vorum búin að árétta þetta við þá,“ segir Guðmundur Heiðar, upplýsingafulltrúi Strætó, í svari við fyrirspurn Víkurfrétta.
Börn fædd árið 2005 og yngri eru með undanþágu frá grímunotkun. Viðskiptavinir Strætó eru ábyrgir fyrir því að útvega sér eigin andlitsgrímur.
Farþegar bíða eftir því að stíga um borð í vagninn á leið 55 í Reykjanesbæ í hádeginu.