Bílalest með gagnaver Verne Global að leggja af stað í Bretlandi
Nú eru innan við tvær klukkustundir í að bílalest með 37 einingar sem mynda fyrsta gagnaver Verne Global á Ásbrú leggi af stað frá framleiðandanum Colt í Bretlandi. Mikið hefur verið gert úr flutningnum á vef framleiðandans og m.a. hefur verið talið niður í þá dagsetningu að gagnaverið fari af stað.
Á Ásbrú hefur einnig verið unnið af kappi síðustu daga til að taka á móti gagnaverinu og hafa iðnaðarmenn verið að störfum frá því snemma að morgni og fram á kvöld. Auglýst hefur verið eftir vélvirkjum, bifvélavirkjum og rafvirkjum til að starfa við gagnaverið. Einnig hefur öryggisfyrirtæki óskað eftir öryggisvörðum til að gæta nýja gagnaversins.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á Ásbrú í gær þar sem unnið var að framkvæmdum við gagnaver Verne Global. VFmyndir/hilmarbragi