Bifhjól þeyttist nær 100 metra eftir útafakstur
	Bifhjól hafnaði utan vegar á Reykjanesbraut við Hafnaveg í Reykjanesbæ um kvöldmatarleytið í fyrradag. Ökumaður tjáði lögreglunni á Suðurnesjum að ástæðan væri sú að hann hefði ekið á steinvölu sem var á veginum með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á hjólinu. Bifhjólið spýttist tæpa hundrað metra eftir að það fór útaf og skemmdist mikið. Ökumaðurinn kenndi verkjar í handlegg og ætlaði að leita sjálfur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
	 


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				