Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bíðum eftir að hér verði stórslys
Sunnudagur 2. ágúst 2009 kl. 23:41

Bíðum eftir að hér verði stórslys

- segir Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri

Úrbætur þarf að gera strax á mótum Grænásbrautar og Reykjanesbrautar, einum hættulegustu gatnamótum Suðurnesja. Tíð umferðarslys hafa verið á þessum gatnamótum í kjölfar þess að líf færðist að nýju í gömlu herstöðina þar sem nú er Ásbrú.
Hringtorgi hefur verið lofað á þessum gatnamótum. Reyndar átti hringtorgið að koma í sumar en svo virðist sem torgið hafi eingöngu verið fallegt kosningaloforð, en því var lofað fyrir kosningar í vor.
Einu úrbæturnar á gatnamótunum eru stærri stöðvunarskyldumerki sem Vegagerðin setti upp í vor. Þá tók Magnús Daðason málari sig til fyrir fáeinum dögum og málaði stöðvunarskyldumerki á akbrautirnar við gatnamótin og það á eigin reikning. Í satali við Víkurfréttir sagði Magnús að honum blöskraði að ekki hafi verið ráðist í úrbætur á þessum gatnamótum og vonaðist til að auknar merkingar hefðu eitthvað að segja.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, var að störfum á vettvangi umferðarslyssins nú í kvöld. Hann sagði menn væru í raun að bíða eftir því að þarna yrði alvarlegt slys. Jón og hans menn hafa farið í fjöldan allan af útköllum á þessi gatnamót þar sem eignatjón hefur orðið mikið og líf og limir fólks í mikilli hættu. Ennþá hefur ekki orðið banaslys á þessu horni, en margir hafa slasast og sumir alvarlega. "Þetta er spurning um hvenær hér verið stórslys," sagði Jón í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Fyrr í sumar sendu Víkurfréttir tveimur þingmönnum Suðurnesja úr í ríkisstjórnarmeirihlutanum fyrirspurn vegna gatnamótanna. Erindið þurfti að ítreka en þá fengust þau svör að ekki væri annað vitað en að gatnamótin yrðu endurnýjuð með hringtorgi í sumar. Samgönguráðherra átti að fá fyrirspurn frá þingmönnunum og áttu Víkurfréttir að fá fréttir af viðbrögðum samgönguráðherra þegar þau myndu berast. Síðan þá er allur júlímánuður liðinn og nokkur umferðarslys til viðbótar hafa orðið á þessum hættulegustu gatnamótum Suðurnesja. Enn hefur ekkert heyrst frá samgönguráðherra um málið.

Myndir: Gatnamót Grænásbrautar og Reykjanesbrautar í kvöld. Þar varð enn einn harði áreksturinn. Hurð skall nærri hælum. Sekúndum frá banaslysi, sögðu viðbragðsaðilar. Einkaaðili málaði stöðvunarmerki á akbrautirnar til að vekja athygli á hættulegum gatnamótum. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024