Betri sviptivindar við Pósthússtræti
- fundað með íbúum vegna byggingar nýrra háhýsa við götuna.
„Breytingin er að líkindum til batnaðar varðandi sviptivinda við húsið,“ segir í gögnum um vindálag við Pósthússtræti 3 og 5 sem lagt var fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar í morgun.
Unnin hefur verið könnun á vindafari við Pósthússtræti í Keflavík og er niðurstöðu könnunarinnar lýst í minnisblaði Verkfræðistofunnar Eflu. Framkvæmdir við byggingu háhýsis við Pósthússtræti 5 hafa verið stopp í nokkrar vikur vegna breytingar á skipulagi og þá hafa íbúar að Pósthússtræti 3 mótmælt nálægð nýja háhýsisins en aðeins eru 12 metrar á milli bygginganna. Þá var byggingunni að Pósthússtræti snúið 180 gráður á byggingareit sínum.
Umhverfis- og skipulagsráð óskaði eftir gögnum um vindálag sem nú hefur verið skilað inn. en þau segja að breytingin er að líkindum til batnaðar varðandi sviptivinda við húsið.
Formanni umhverfis- og skipulagsráðs hefur verið falið að funda með íbúum við Pósthússtræti vegna málsins.
Forsaga málsins er að Mannvit ehf. lagði fram erindi um skipulagsbreytingu sem kemur fram á uppdrætti dagsettum 2. júlí 2018 sem tekið var fyrir á fundi umhverfis og skipulagsráðs á fundi nr. 212 þann 12. júlí 2018. Erindi var sent í grenndarkynningu sem lauk þann 12. september 2018. Fjórar athugasemdir bárust þar af ein með 43 undirskriftum íbúa Pósthússtræti 3 sem vísar til einróma samþykktar stjórnar húsfélagsins á bréfi frá JA lögmönnum dagsett 29.08.2018. Megin inntak flestra mótmæla er nálægð húsa, fjöldi íbúða og fjöldi bílastæða.