„Betra að þeir séu að klifra en að þeir séu að drekka“
Í síðasta tölublaði Víkurfrétta birtust myndir af þremur ungum mönnum sem voru, að því er virtist, að stunda stórhættulegt sig niður tankana við Njarðvíkurhöfn.
Drengirnir gáfu sig hins vegar fram til ritstjórnar Víkurfrétta og vildu skýra sína hlið á málinu. Drengirnir sem eru 15 og 16 ára heita Guðmundur Stefánsson, Ísak Jóhannsson og Óskar Olsen. Þeir hafa stundað þessa iðju um nokkuð skeið og eiga öll nauðsynleg tæki og tól.
Þeir hafa verið að síga á tönkunum í Njarðvík og einnig í Helguvík auk þess að þeir hafa klifið í klettum við Háabjalla.
Drengirnir taka það fram að þeir viti vel að þeir megi ekki vera þarna, en þar sem engin önnur aðstaða sé fyrir þessa íþrótt hafi þeir ekki aðra kosti.
„Það er betra að strákarnir séu að klifra og stunda heilbrigða útivist heldur en að þeir séu hangandi niðri í bæ að drekka sig fulla um helgar,“ segir Stefán Guðmundsson, faðir eins drengjanna. Stefán bætti því við að bæjaryfirvöld ættu að íhuga að koma upp aðstöðu til klettaklifurs því að þó nokkuð væri um krakka á svæðinu sem stundi íþróttina.
VF-mynd/Þorgils Jónsson