Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Berserkjasveppir á útivistarsvæði valda áhyggjum
Laugardagur 1. október 2016 kl. 06:00

Berserkjasveppir á útivistarsvæði valda áhyggjum

Töluvert er af berserkjasveppum á vinsælu útivistarsvæði í Sólbrekkuskógi upp af Seltjörn. Sveppurinn er með mjög einkennandi útlit, m.a. stóran rauðan hatt með hvítum flekkjum. Berserkjaveppur er eitraður og inniheldur nokkur geðvirk efni. Sjaldgæft er að fólk deyi af neyslu hans en jafnvel lítið magn veldur meltingartruflunum, sljóleika, skapsveiflum og ofskynjunum. Magn eiturefna í sveppnum er þó mjög mismunandi eftir stöðum og árstíma, segir á Wikipedia um sveppinn

Í góðviðrinu að undanförnu hefur fólk verið að njóta haustsins í og við skóginn í Sólbrekkum. Þangað fór m.a. amma með barnabarn sitt í byrjun vikunnar. Barnið gekk um skóginn á undan ömmu sinni og heillaðist mjög af litríkum sveppum og ætlaði að rífa upp og bíta í. Amman náði að stöðva það og þurfti það sem eftir lifði skógarferðarinnar að halda í barnið.

Public deli
Public deli

Það vakti athygli á svæðinu var búið að taka upp eitthvað af sveppum og tálga af þeim. Í samtali við Víkurfréttir sagði amman að hún hefði tilkynnt til lögreglu um sveppina, enda greinilegt að það væri sótt í þá og hún hafði áhyggjur af heilsu þeirra sem væru að fikta við sveppaneysluna.

Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að ekki væri líklegt að laganna verðir færu sérstaklega í sveppatínslu. Hvorki væri fjármagn eða mannskapur í slíkt verkefni.



Um sveppinn

Berserkjasveppur (fræðiheiti: Amanita muscaria) er sveppur af ættkvísl reifasveppa. Íslenskt nafn sitt dregur af þeirri hugmynd að víkingar hafi étið sveppinn áður en þeir fóru í bardaga til að ganga berserksgang. Þessi sögn kemur fyrst fram í grein eftir sænska prestinn Samuel Ödmann árið 1784 þar sem hann reynir að útskýra berserki og berserksgang í anda upplýsingarinnar. Engar eldri heimildir geta hins vegar um slíka notkun meðal norrænna manna og verður að teljast afar ólíklegt miðað við þekkt áhrif af neyslu hans að menn hafi verið til stórræða í orrustu eftir að hafa innbyrt berserkjasvepp.