Ber glögg merki fjármálastjórnunar sjálfstæðismanna
„Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber Reykjanesbæ að leggja fram 10 ára skuldaaðlögunaráætlun og var það gert á síðasta ári. Ekki var blekið fyrr þornað á þeirri áætlun þegar ljóst var að hún stóðst ekki og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sem fylgst hefur grannt með sveitarfélaginu síðustu árin, gerði kröfu um nýja áætlun“. Þetta kemur fram í bókun Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi.
Þá segir: „Nýjasta 10 ára skuldaaðlögunaráætlun Reykjanesbæjar ber glögg merki fjármálastjórnunar sjálfstæðismanna undanfarinn áratug. Seldar hafa verið eignir fyrir 20 milljarða síðustu ár - hlutabréf, skuldabréf, land, orkuauðlindir og hlutur í HS-veitum – en samt er staða bæjarsjóðs afar slæm.
Samkvæmt skuldaaðlögunaráætluninni er stefnt að því að ná skuldahlutfalli bæjarsjóðs (skuldir sem hlutfall af tekjum hver árs) niður undir 150% á árinu 2019 en skuldahlutfall bæjarsjóðs er nú 223%. Á næstu árum er ljóst að með eignasölu verður hægt að ná skuldahlutfalli bæjarsjóðs niður í 150% en svo að það gangi eftir þurfa tekjur einnig að aukast verulega. Áætlunin gerir því ráð fyrir mikilli íbúafjölgun og samfara því mikilli tekjuaukningu. Teflt er á tæpasta vað í þessum áætlunum og ljóst að út af engu má bregða ef markmiðin eiga að ganga upp.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt til við bæjarstjórn að vegna alvarlegrar stöðu bæjarsjóðs verði settur á fót vinnuhópur sem endurskoði ásamt sérfræðingum allan rekstur bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar og skili inn tillögum um úrbætur til bæjarstjórnar. Við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar ítrekum þessa tillögu okkar enda teljum við hana verða bæjarfélaginu til gagns“.
Undir þetta rita þau Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson.