Ben Stiller leigir Stafnesið
Fjölveiðiskipið Stafnes KE 130 sem er með heimahöfn í Keflavík, leikur stórt hlutverk í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty sem Ben Stiller vinnur á Íslandi að um þessar mundir. Leikarinn leigir skipið í heilan mánuð og áhöfnina með.
Stiller og hans aðstoðarfólk komu auga á Stafnesið strax í janúar og komu þá að máli við Odd Sæmundsson skipstjóra til að fá afnot af skipinu. Oddur hafði gert sér vonir um að geta málað skipið í vor en fólkið frá Hollywood bað hann um að fresta öllum slíkum framkvæmdum því þeir vilja hafa hann eins ljótan og mögulegt er. Því verður þó breytt og fær Stafnesið yfirhalningu að tökum loknum.
„Við erum náttúrlega ekkert að veiða á meðan og þetta slítur náttúrlega vertíðina aðeins í sundur. Þetta er hins vegar bara verkefni sem við erum bundnir við,“ segir Oddur í samtali við Rúv en Stafnesið tók meðal annars þátt í umfangsmiklum tökum í Grundarfirði um síðastliðna helgi.
Stafnesið leikur grænlenskt skip í myndinni sem gert er út frá Nuuk. Oddi og hans mönnum var gert að skrifa undir trúnaðarsamkomulag og því má hann ekki ræða tökurnar né í hvers konar atriðum báturinn hefur verið. Ben Stiller verður með Stafnesið á leigu til 28. september. Síðar í mánuðinum verður skipið í Garðinum þar sem tökur á myndinni fara einnig fram.