Ben Stiller fór á sjóinn í Garði

Það er alrangt að Hollywood-stjarnan Ben Stiller búi í Garðinum og að hann sé sestur að í björgunarstöðinni Þorsteinsbúð í Garði. Það er líka rangt að leikarinn eða hans fólk hafi leigt björgunarstöðina fyrir þrjár milljónir króna.

Ben Stiller var í Garðinum í gær þar sem hann fór á sjóinn og í sjóinn með Björgunarsveitinni Ægi en hlutar úr myndinni The Secret Life of Walter Mitty verða teknir upp í Garðinum í september nk.

Vegna kvikmyndatökunnar hefur kvikmyndagerðarfyrirtæki leigt hluta af björgunarstöðinni í Garði síðar í haust til að geyma þar búnað sinn en leiguverðið er víðsfjarri því sem greint var frá í fjölmiðlum í gær.