Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Belginn látinn laxera í gæsluvarðhaldi
Föstudagur 3. apríl 2009 kl. 19:07

Belginn látinn laxera í gæsluvarðhaldi

Enn hafa engin fíkniefni skilað sér niður af Gilles Romain Catherine Claessens, 21 árs belgískum karlmanni, sem handtekinn var í Leifsstöð í gær. Þetta staðfesti lögreglan á Suðurnesjum nú áðan, þar sem næstu skref verða að gefa manninum laxerolíu til að flýta fyrir hægðum.

Hjá lögreglunni er gert ráð fyrir því að það taki helgina fyrir fíkniefnin að ganga niður hjá manninum.

Ekki er vitað hvaða magn efna maðurinn hefur í kvið eða þörmum, né hverrar tegundar efnin eru.


Farið var fram á gæsluvarðhald yfir Belganum í dag og var hann dæmdur í gæsluvarðhald til 14. apríl næstkomandi.

Hann kom til landsins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær. Var lögregla að færa manninn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í röntgenmyndatöklu þegar hann  lagði  á flótta frá lögreglunni. Talið er  að hann hafi náð að losa af sér handjárn. Umfangsmikil leit var gerð að manninum þar sem tugir lögreglumanna, auk björgnuarsveitarmanna, leituðu mannsins víða í Reykjanesbæ. Vegatálmar voru settir á Reykjanesbraut og kafað var í sjónum utan við bæinn.

Sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra urðu varir við Belgann í miðbæ Reykjanesbæjar um sex leytið í morgun. Hann reyndi að komast undan en lögreglumennirnir hlupu hann uppi og handtóku. Hann játaði við yfirheyrslu að hafa reynt að flytja inn fíkniefni.

Myndin er úr eftirlitsmyndavél í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og er tekin þegar Gilles Romain Catherine Claessens kom til landsins í gærdag með fíkniefni innvortis. Ljósmynd frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024