Beit lögreglumann við handtöku
Lögreglan á Suðurnesjum hefur haldlagt nokkurt magn af fíkniefnum á undanförnum dögum. Í íbúðarhúsnæði, sem lyktaði langar leiðir af kannabis voru haldlagðir nokkrir pokar af kannabisefnum. Húsráðandi var handtekinn vegna vörslu á fíkniefnunum og fluttur á lögreglustöð. Hann sýndi mikinn mótþróa við handtökuna og náði að bíta lögreglumann í höndina áður en yfir lauk.
Þá fundust amfetamín og hnífur á öðrum aðila vegna rannsóknar á óskyldu máli. Loks fundust við hlið bifreiðar, sem ekið hafði verið á ljósastaur fíkniefni í plastíláti. Ökumaður reyndist vera ölvaður og viðurkenndi að auki neyslu fíkniefna. Bifreiðin var mikið skemmd eftir áreksturinn og var fengin dráttarbifreið til að fjarlægja hana af vettvangi.