Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 20. september 2001 kl. 09:39

Beinagrind hrefnunnar fer á safn

Illa lyktandi hvalhræ rak á fjöruna neðan við gömlu sundmiðstöðina í Keflavík sl. laugardag. Sjófuglarnir glöddust yfir þessum góða feng og hafa verið að gæða sér á honum alla helgina. Nú hefur verið ákveðið að halda beinagrindinni og hafa hana til sýnis fyrir ferðamenn í framtíðinni.

Vísindamenn frá Hafrannsóknarstofnun rannsökuðu hræið á mánudaginn og þá kom í ljós að það er af ungri hrefnu. Í fyrstu stóð til að draga hrefnuna sem fyrst á haf út en nú hefur ferðaþjónustufólk sýnt áhuga á að fá að halda beinagrindinni og hafa hana til sýnis fyrir ferðamenn, t.d. í tilvonandi sjóminjasafni í Duus-húsum eða í Fræðasetrinu í Sandgerði.
Að sögn Péturs Jóhannssonar hafnarstjóri er búið að ákveða að leyfa ferðaþjónustufólki að halda beinagrindinni og hafa hana til sýnis í framtíðinni.
Menn frá Hafró og Náttúrufræðistofnun réðust í að taka holdið af beinunum eftir hádegi á miðvikudag en til stendur að urða kjötið. Helga Ingimundardóttir, frá Ferðaþjónustu Suðurnesja, átti hugmyndina að því að halda grindinni eftir en hún var á staðnum þegar karlarnir byrjuðu að skera hvalinn.
„Bein hrefnunnar verða hlutuð niður og þau síðan látin í volgt vatn í fiskikörum. Þar verða beinin látin liggja í nokkra daga. Síðan verður farið með beinin fjarri mannabyggðum og þau látin úldna í langan tíma“, segir Helga til útskýringar.
En hver er tilgangurinn með að halda upp á beinagrindina?
„Reykjanesið er vaxandi hvalaskoðunarstaður og þá skapast meiri þörf fyrir afþreyingu í tengslum við það. Fólk hefur t.d. áhuga á meiri fræðilegri umfjöllun um sjávarspendýrin og því borgar sig að fara að safna í sarpinn til að við höfum eitthvað til að sýna fólki“, segir Helga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024