Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Beðið eftir framleiðslu óbyggðrar verksmiðju
Fimmtudagur 2. desember 2004 kl. 10:54

Beðið eftir framleiðslu óbyggðrar verksmiðju

Barry Bernstein forstjóri International Pipe and Tube segist í viðtali við Víkurfréttir að hann vonist til að byggingaframkvæmdir vegna stálpípuverskmiðjunnar á neðri lóð fyrirtækisins hefjist í apríl. Segir Barry að hollenskur banki muni fjármagna verkefnið, en ekki er vitað um hvaða banka er að ræða. Tvísýnt er hvort verksmiðja sem fyrirtækið ætlaði að reisa á nýrri lóð í Helguvík verði reist. Kemur það í ljós á næstu tveimur vikum hvort af verði.
Hvernig standa málin varðandi verksmiðjuna í Helguvík?
Það er skriður á málinu. Við erum komnir með banka í Hollandi sem mun fjármagna verkefnið. Við getum ekki gefið upp hvaða banka er um að ræða því á hans vegum mun verða gefin út fréttatilkynning á þeim

Hvenær verður það?
Ég veit ekki alveg hvenær það verður. Bankinn er að lána okkur 45 milljónir dollara og við stjórnum því ekki hvenær þeir gefa út fréttatilkynningu um málið.

Þetta verkefni hefur tekið lengri tíma en þið áætluðuð er það ekki?
Svona verkefni taka langan tíma. Þegar við byggðum upp verksmiðjuna í Eistlandi þá átti það verkefni að taka tvö ár en tók fjögur. Það er sama hve mikinn tíma þú ætlar í verkefni sem þetta - því miður verður undirbúningstíminn alltaf lengri en áætlanir gera ráð fyrir.

Hvað hefur undirbúningurinn fyrir þetta verkefni tekið langan tíma?
Við höfum unnið að þessu verkefni í næstum tvö ár. En við erum tveimur árum á undan ef við berum þetta saman við verkefnið í Eistlandi.

Hvenær heldurðu að hlutirnir liggi ljósir fyrir?
Við reiknum með að  ljúka undirbúningi á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, líklega í febrúar eða mars. Lögfræðingar eru nú að fara yfir málin.

Telurðu þá að framkvæmdir við verksmiðjuna hefjist í mars eða apríl?
Já, við reiknum með að geta hafið byggingaframkvæmdir í apríl. Við vinnum eftir þeirri áætlun núna.

Nú hafið þið sótt um aðra lóð í Helguvík og fengið henni úthlutað þar sem áætlanir voru uppi um að reisa minni verksmiðju. Hvernig gengur sú vinna?
Við eigum þá verksmiðju sem við keyptum í Kanada. Hinsvegar varð kostnaðaráætlunin fyrir uppsetningu verksmiðjunnar mun hærri en við gerðum ráð fyrir og þessa dagana erum við að endurmeta kostnaðaráætlunina.

Þannig að þið eruð ekki hættir við uppsetningu þeirrar verksmiðju?
Nei, en við þurfum meira fjármagn til og við erum að yfirfara málið varðandi fjármögnun.

Telurðu líklegt að þið hefjið byggingaframkvæmdir við þá verksmiðju fljótlega?
Við erum með þetta verkefni á hliðarlínunni og það gæti farið á báða vegu. Undirbúningur stærri verksmiðjunnar gengur vel en við munum taka ákvörðun á næstu vikum hvað við gerum varðandi minni verksmiðjuna.

Ertu bjartsýnn á að þetta gangi allt saman?
Já, ég er mjög bjartsýnn varðandi stærri verksmiðjuna. Hvað varðar þá minni þá varð kostnaðurinn meiri en við áætluðum og ekki er enn ljóst hvort af því verkefni verði.

Hafið þið gert sölusamninga varðandi ykkar framleiðslu?
Okkar viðskiptavinir bíða eftir framleiðslu okkar, en það eru ennþá tvö ár þangað til við getum farið að framleiða.

Margir íbúa Suðurnesja virðast hafa misst trúna á að stálpípuverksmiðja í Helguvík muni nokkurn tíma rísa. Hvað hefurðu að segja um það?
Það var sama vandamálið uppi í Eistlandi þegar við vorum að undirbúna verksmiðjuna þar í landi. Allir sögðu að þetta ætti ekki eftir að verða  en svo sannarlega varð þetta að veruleika - tók bara fjögur ár í stað tveggja. Það tekur tíma að undirbúa og koma stórum verkefnum á koppinn.  Við erum að tala um heildarfjárfestingu upp á 80 milljónir dollara. Þetta eru miklir peningar og það tekur sinn tíma að koma verkefni  sem þessu saman.

Myndir: F.v. David Snyder og Barry Bernstein í Helguvík í desember í fyrra. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024