Báti bjargað frá strandi á Reykjanesi
Litlu mátti muna að dragnótarbáturinn Guðrún HF hafi strandað í fjörunni við Sandvík út af Höfnum á Reykjanesi um hádegisbil í dag, en báturinn fékk veiðarfærin í skrúfuna. Það var dragnótarbáturinn Benni Sæm GK 26 sem bjargaði bátnum frá strandi, en báðir bátarnir voru að veiðum út af Sandvík. Halldór Valdimarsson skipstjóri á Benna Sæm sagði í samtali við Víkurfréttir að það hefði engu mátt muna að illa færi. „Guðrún var innan við hálfa mílu frá fjörunni þegar við komum spotta í hana. Ég var nýbúinn að kasta, en þegar þeir kölluðu setti ég belgi á tógin og dreif mig af stað.“ Halldór segir að það hafi verið álandsvindur og töluverð hvika í sjónum. „Það gekk vel að koma taug í bátinn og við fórum með hann í Sandgerði,“ sagði Halldór í samtali við Víkurfréttir.
Guðrún HF 172 er tæplega 78 brúttórúmlesta skip smíðað árið 1974.
VF-ljósmynd/Bergur Þór Eggertsson: Benni Sæm GK kemur með Guðrúnu HF til hafnar í Sandgerði í dag.