Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bátasafn Gríms Karlssonar fær gamla handfærarúllu að gjöf
Fimmtudagur 22. janúar 2004 kl. 14:29

Bátasafn Gríms Karlssonar fær gamla handfærarúllu að gjöf

Ein fyrsta handfærarúlla sem smíðuð var á Íslandi var í dag gefin á Bátasafn Gríms Karlssonar í Duus húsum, en það var Garðar Magnússon frá Höskuldarkoti í Njarðvík sem gaf rúlluna. Oddgeir Pétursson uppfinningamaður úr Keflavík smíðaði rúlluna árið 1952 og var hann viðstaddur afhendinguna í bátasafni Gríms í dag, en Oddgeir verður níræður í sumar.
Það var Magnús Ólafsson, faðir Garðars sem keypti fjórar handfærarúllur af Oddgeiri árið 1952 en rúllurnar voru notaðar um borð í Gylfa GK-522 sem Magnús var útgerðarmaður að.

„Ja, nú er ég hissa. Þetta er frumgerðin. Þetta hélt ég að væri ekki til,“ sagði Oddgeir þegar hann sá rúlluna við afhendinguna. Að sögn Garðars og Oddgeirs gjörbreyttu þessar rúllur handfæraveiðum á Íslandi. „Áður en rúllurnar komu þurfti maður að draga girnið inn á höndum og það lá flækt um allt dekk,“ segir Garðar.
Þegar Oddgeir er spurður að því hvernig honum hafi dottið í hug að smíða handfærarúlluna svarar á hógværan hátt. „Ja, öllum dettur nú allskyns vitleysa í hug.“

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Garðar Magnússon og Oddgeir Pétursson við rúlluna góðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024