Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Barrspæta heilsaði upp á fuglaáhugafólk í Grindavík
Barrspætan í skógarrjóðrinu í hlíðum Þorbjarnarfells við Grindavík. Ljósmynd: Gunnar Þór Hallgrímsson.
Föstudagur 27. október 2023 kl. 16:35

Barrspæta heilsaði upp á fuglaáhugafólk í Grindavík

Hvarf en fannst aftur í skógarrjóðri í hlíðum Þorbjarnarfells

Það er stundum sagt að sjaldséðir fuglar leiti uppi fuglaáhugafólk. Þannig atvik átti sér stað í Grindavík um helgina. Grindvíkingurinn Eyjólfur Vilbergsson er einn afkastamesti fuglaljósmyndari landsins og hann fékk óvæntan gest í garðinn sinn í Grindavík þegar barrspæta (Great Spotted Woodpecker) gerði vart við sig. Spætan umrædda er af tegund flækingsfugla sem hafði ekki verið skráð á lista fugla sem höfðu sést hér á landi.

Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, birti mynd af barrspætunni en hann náði myndinni í trjálundi við Þorbjarnarfell á sunnudaginn. Gunnar Þór er vel kunnur mörgu Suðurnesjafólki en hann starfaði hjá Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði þegar hann var í doktorsnámi sínu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í færslu á fésbókinni um nýliðna helgi skrifaði Gunnar: „Þann 1. nóvember 2018 varð ég fyrir því hálfgerða óláni að barrspæta flaug yfir mig á meðan ég var að vitja um músagildrur í Heiðmörk ásamt nemendum mínum. Ég var ekki með sjónauka og gat ekki séð nein nákvæm einkenni önnur en stærð, lögun, fluglag og hljóð áður en spætan hvarf mér sjónum.

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að leggja fuglinn ekki fyrir Flækingsfuglanefnd og þ.a.l. skrá hann ekki á lista yfir þær fuglategundir sem ég hef séð á Íslandi. Ég hef oft nagað mig í handarbökin yfir þessari ákvörðun vegna þess að líkurnar á að sjá barrspætu aftur á Íslandi eru mjög litlar.

Þau stórtíðindi bárust síðdegis í gær [föstudag] að Eyjólfur Vilbergsson hefði fundið barrspætu í garðinum hjá sér í Grindavík. Frétta úr garði Eyjólfs var því beðið með mikilli eftirvæntingu í allan dag en því miður þá var spætan á bak og burt. En kl. 16:18 bárust óvænt fréttir af barrspætu í litlum trjálundi við Þorbjarnarfell í Grindavík, tæpum 2 km norðan við garð Eyjólfs. Ég ásamt fleirum brunuðum strax á staðinn og þar beið barrspætan. Hún var nokkuð spök og leyfði mér að taka þessa mynd af sér. Loksins get ég bætt þessari fallegu tegund formlega á listann minn og hætt að hugsa um barrspætuna í Heiðmörk fyrir 5 árum,“ skrifar Gunnar Þór um barrspætuna fögru í Grindavík.

Barrspætan er útbreidd um alla Evrópu og á breiðu belti allt til Austur-Asíu að Japan meðtöldu.