Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. apríl 2002 kl. 14:16

Barnaverndarmál stærsti málaflokkurinn

Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar (FFR) hefur ákveðið að leggja áherslu á forvarnir í allri starfsemi stofnunarinnar, allt frá barnaverndarstarfi til öldrunarmála og við stefnumótun- og áætlanagerð. Þetta kemur fram í Ársskýrslu FFR 2001 sem nú er komin út en þar kemur jafnframt fram að fjölskyldumál voru í brennidepli og áhersla lögð á stuðning við foreldra.Þann 1. desember 2001 voru íbúar í Reykjanesbæ 10.942. Útgjöld til Fjölskyldu- og félagsþjónustu námu kr. 182.549.000 sem svarar til kr. 16.683 á hvern íbúa.

Stærsti útgjaldaliðurinn árið 2001 var fjárhagsaðstoð en hún hækkaði um 43% á milli ára úr kr. 16.812.000 í kr. 24.130.000 Niðurgreiðsla til dagmæðra lækkaði hinsvegar úr kr. 15.202.000 í kr. 11.380.000 eða um 34% sem má rekja til þess að nýr leikskóli var opnaður á árinu og börnum hjá dagmæðrum fækkaði.

Sundurliðun útgjalda 2001er eftirfarandi:
Fjölskyldu- og félagsþjónusta/skrifstofa kr. 44.639.000, fjölskyldu- og félagsmálaráð kr. 1.276.000, barnaverndarnefnd kr. 1.260.000, tilsjón, stuðningsfjölskyldur kr. 3.359.000, Vistun barna kr. 16.787.000, sumardvalir í sveit kr. 2.511.000, niðurgreidd dagvistargjöld á leikskólum kr. 4.130.000, niðurgreidd dagvist hjá dagmæðrum kr. 11.380.000, gæsluvellir kr. 10.372.000, fjárhagsaðstoð kr. 24.130.000, móttaka flóttamanna kr. 2.510.000, húsaleigubætur kr. 10.380.000, félagslegt húsnæði kr. 18.600.000, íbúðir aldraðra kr. 5.516.000, félagsleg heimaþjónusta kr. 19.860.000, dagdvöl aldraðra kr. -811.000, liðveisla kr. 4.628.000, ferilmál fatlaðra kr. 2.022.000.

Barnaverndarmál eru stærsti málaflokkur FFR en þar er lögð megináhersla á stuðning og leiðbeiningar til foreldra varðandi uppeldi og aðbúnað barna þeirra. Einnig er lögð áhersla á samvinnu við aðra aðila sem koma að uppeldi barna þ.e. leik- og grunnskóla og íþrótta- og tómstundaaðila. Á árinu 2001 voru mál 221 barns til vinnslu hjá FFR.

Rekstur gæsluvalla bæjarins var endurskipulagður vegna minnkandi aðsóknar og þeim fækkað um tvo. Eftir úttekt á ástandi vallanna var ákveðið að loka Ásabrautarvelli og Miðtúnsvelli. Frá og með 1. september 2001 eru þrír gæsluvellir starfandi í sveitarfélaginu, Brekkustígsvöllur og Heiðarbólsvöllur sem eru opnir allt árið og Stapagötuvöllur sem er opinn yfir sumarið.

Þar sem leikskólarýmum fjölgaði í Reykjanesbæ þegar nýr leikskóli var tekinn í notkun í ársbyrjun 2001 fækkaði börnum hjá dagmæðrum um 45 milli ára og dagmæðrum fækkaði um 6. Dagmæður í Reykjanesbæ voru 21 í desember 2001, þar af höfðu 2 uppeldismenntun. Þann 1. desember voru 113 börn hjá dagmæðrum þar af voru 111 tveggja ára eða yngri. Algengasti vistunartími var 4 tímar á dag.

Félagslegum leiguíbúðum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Alls eru nú 297 slíkar íbúðr í Reykjanesbæ, þar af eru 68 sérstaklega ætlaðar öldruðum og 6 fötluðum. Hafin var bygging 25 félagslegra leiguíbúða fyrir aldraða sem áætlað er að taka í notkun vorið 2002. Með þeirri byggingu er gert ráð fyrir að fullnægja að mestu eftirspurn eftir slíku húsnæði.
Af www.reykjanesbaer.is


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024