Barnaperri handtekinn í sundlauginni
Hópur foreldra í Reykjanesbæ mun í dag leggja fram kærur á hendur pólskum karlmanni sem handtekinn var í Sundmiðstöðinni í gær fyrir að leita á ungar stúlkur. Samkvæmt upplýsingum VF mun hann hafa haft þessa tilburði í frammi síðastliðinn föstudag og svo aftur í gær. Kvartað hafði verið undan manninum í fyrra skiptið og var því starfsfólk og lögregla í viðbragðstöðu í gær.
Jóhannes Jensson hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum vildi engar upplýsingar gefa um málið þegar haft var samband við hann í morgun og vísaði á Eyjólf Kristjánsson fulltrúa. Ekki hefur náðst í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Jóhannes vildi heldur ekki staðfesta að maðurinn væri enn í haldi.
Móðir einnar stúlkunnar segir í samtali við VF að dóttir hennar, sem er 12 ára, hafi verið í hópi með vinkonum sínum á svipuðum aldri. Hún sé miður sín eftir atvikið. Móðirinn mun leggja fram kæru strax eftir hádegið. Að hennar sögn munu foreldrar hinna stúlknanna væntanlega allir kæra en þeir voru kallaðir niður í sundlaug í gær eftir að maðurinn var handtekinn. Eftir því sem næst verður komist er um tug foreldra að ræða sem kæra munu manninn í dag og á morgun.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson