Barnaníðingssímtöl einnig í Reykjanesbæ
Í kjölfar fréttar af símhringingum í Sandgerði þar sem einstaklingur kynnti sig sem þekktan barnaníðing sem væri að flytja til bæjarins hefur Víkurfréttum borist bréf frá konu í Reykjanesbæ sem fékk svipaða upphringingu í gær. Hún hefur einnig sent Reykjanesbæ bréfið til að upplýsa yfirvöld þar um málið.
Í bréfinu sem konan sendir til Víkurfrétta segir að þessi hrekkur í Sandgerði sem fjallað er um í Víkurfréttum í gær, þriðjudag, er ekki bundinn við Sandgerði.
Um kvöldmatarleytið í gær hringdi konuna maður sem kynnti sig með nafni og sagðist vera að flytja á Mávabraut í Keflavík, þar sem hún bjó þar síðasta vetur, og að hann væri dæmdur barnaníðingur en búinn að taka út sína refsingu og væri í bata. Hann væri ekkert að gera svona lengur en honum bæri skylda til að láta nágranna sína vita af sér og að hann hefði kosið að hringja frekar en að banka upp á. Tekið skal fram að ekki var notast við sama nafn og í Sandgerði.
„Í upphafi talaði maðurinn með breyttri röddu sem var gerfileg með eindæmum en hélt ekki út leikaraskapnum. Að sama skapi þá veit ég mæta vel að barnaníðingum sem og öðrum afbrotamönnum á Íslandi ber engin skylda til að tilkynna nágrönnum sínum af sér. Ég hváði þó og innti hann eftir nafni aftur til að geta athugað málið síðar.
Gaurinn var skrafhreyfinn og fannst mér hann vera að reyna að falast eftir einhverjum upplýsingum. Hann sagði m.a. “Þú átt engin börn er það?” og neitaði ég að sjálfsögðu enda hafði ég á tilfinningunni að þetta væri eitt það asnalegasta símaat sem ég hefði nokkurn tímann á ævi minni orðið vitni að!. Svo spurði hann mig hvort nokkur börn væri í hverfinu og þar sem ég á mjög erfitt með fávisku hváði ég enn og aftur og sagði að það væru börn í
öllum hverfum, alls staðar og að halda annað væri nú bara fásinna – ég hef vonandi slegið gaurinn örlítið útaf laginu – og sagði honum svo að halda bara áfram að hringja. Hann náði þó að spyrja mig hvort ég ætti nokkuð sykur út í kaffið hans og neitaði ég því stutt og skorinort.
Af og til heyrði ég í öðrum manni í bakgrunni og svo var skellt á í miðri setningu gaursins.
Ég á erfitt með að tengja hvernig maðurinn fann símanúmerið mitt og tengdi það við Mávabraut, en fegin var ég að hann var í það minnsta með rangt heimilisfang ef honum gekk eitthvað misjafnt til. Ég gef ekki mikið af upplýsingum um mig á Internetinu á opnum síðum og blaðra ekki við ókunnugt fólk á þeim vettvangi heldur. Ég íhuga hins vegar að breyta skráningu símanúmeris míns og láta taka mig af netskrá ja.is
Ég viðurkenni fúslega að mig hryllti við tilhugsuninni að barnaníðingur væri að hringja og tilkynna komu sína í húsið á Mávabraut og þó skynsemin hafi náð yfirhöndinni fljótt um að þetta væri hrekkur – mjög ósmekklegur þó!, þá var ég afskaplega fegin að barnið hafi ekki svarað símanum í þetta skiptið og til öryggis setti ég keðjuna fyrir dyrnar!
Þetta er eitt það ósmekklegasta sem ég hef heyrt af og spurning hvort tilgangurinn hefur verið að hræða íbúa eða koma óorði á nefndan einstakling“, segir konan í bréfi til Víkurfrétta og Reykjanesbæjar.