Barbara og Tom Hall heiðruð á Garðvangi
Hjónin Tom og Barbara Hall hafa í gegnum tíðina unnið óeigingjarnt starf í þágu dvalarheimilisins Garðvangs í Garðinum.
Þau voru búsett hérlendis á árunum 1992-1998 þegar Tom starfaði sem aðmíráll á svæði varnarliðsins sem nú kallast Ásbrú. Hjónin eru stödd hér í heimsókn og af því tilefni afhenti Finnbogi Björnsson forstöðumaður Garðvangs Barböru gjöf og þakkaði henni fyrir vel unnin störf í þágu Garðvangs en hún hefur m.a sent jólakort á Garðvang á hverju ári og hún og Tom teljast verndarar Garðvangs auk þess sem Tom brá sér í gervi jólasveinsins eitt árið við mikla hrifningu gesta.
Barbara varð mjög hissa og snortin er Finnbogi afhenti henni málverk og hélt tölu henni til heiðurs og svo var boðið uppá íslenskar vöfflur og kaffi.
VF-Myndir Eyþór Sæmundsson: Tom og Barbara eru önnur og þriðju frá vinstri á efri myndinni og að neðan má sjá Barböru með gjöfina