Bára tók skóflustungu að Báruklöpp í Garðinum
Bára Bragadóttir tók fyrstu skóflustunguna að fyrstu íbúðum Braga Guðmundssonar ehf. við Báruklöpp í Garði. Báruklöpp er gata í Klappa- og Teigahverfi í Garði í Suðurnesjabæ. Þar mun mun Bragi Guðmundsson ehf. byggja samtals tuttugu og fjórar íbúðir í rað- og parhúsum.
Bragi Guðmundsson ehf. er byggingaverktakafyrirtæki í eigu feðganna Braga Guðmundssonar og Sveinbjörns Bragasonar. Þeir feðgar hafa verið afkastamiklir í húsasmíði í Garðinum og reyndar víðar síðustu ár. Bragi hefur verið byggingaverktaki í fjóra áratugi en Sveinbjörn sonur hans er alinn upp í smíðunum með pabba sínum og kom inn í reksturinn fyrir nokkrum árum. Fleiri úr fjölskyldunni koma að rekstrinum á einn eða annan hátt. Pétur Bragason teiknar húsin fyrir föður sinn og Bára Bragadóttir starfar einnig hjá föður sínum og bræðrum, því þegar hún er ekki að smíða, þá aðstoðar hún Þorvald bróður sinn á tannlæknastofu hans í Keflavík. Þá sér Valgerður Þorvaldsdóttir, eiginkona Braga, um bókhaldið.
Bragi segir að nafn götunnar, Báruklöpp, vera skemmtilega tilviljun. Móðir hans hét Bára og þá heiti dóttir hans því nafni og því ekkert annað komið til greina en að hún myndi taka fyrstu skóflustunguna.
Við Báruklöpp verða tuttugu og fjórar íbúðir í rað- og parhúsum. „Við ætlum að byrja á tólf íbúðum í raðhúsum án bílskúrs í fyrri áfanganum en hinar íbúðirnar, í síðari áfanganum, eru í parhúsum með bílskúrum. Við erum að breyta og taka upp alveg nýjan stíl,“ segir Bragi í samtali við Víkurfréttir
„Þetta er orðið svo einsleitt, við ætlum bara að breyta um stíl. Við vorum búnir að byggja svo mikið af svipuðu húsum að okkur langar að breyta til. Ætlum að byggja vistvæn hún með gras á þakinu, aðeins að leggja metnað í þetta,“ segir Bragi um nýja stílinn.
„Við ætlum að vinna með heildarmynd af götunni og klára hana frá A til Ö þannig að heildarmyndin sé góð,“ bætir Sveinbjörn við en Pétur Bragason teiknar nýju húsin.
Nánar er fjallað um Báruklöpp og önnur verkefni Braga Guðmundssonar ehf. í Suðurnesjamagasíni í þessari viku. Þátturinn er á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30.
Bára Bragadóttir tók fyrstu skóflustunguna að byggingum við Báruklöpp. Hún settist við stjórntækin í þessari stórvirku beltagröfu og gróf djúpa holu. VF-myndir: Páll Ketilsson