Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bar synina út úr brennandi húsi
Föstudagur 5. nóvember 2004 kl. 10:06

Bar synina út úr brennandi húsi

Eldur kom upp í eldhúsi tvíbýlishúss í Sandgerði um hádegi í gær. Fjölskyldufaðir var heima með tveimur sonum sínum. Reynir Sveinsson slökkviliðsstjóri í Sandgerði segir eldinn hafa verið mikinn þegar slökkvilið bar að. Ef ekki hefðu verið steinsteyptir veggir og loftplata í eldhúsinu hefði farið mun verr.

Jón V. Ingvarsson húseigandi segir að athygli hans hafi verið vakin þegar hann heyrði gler springa í eldhúsinu: "Það skíðlogaði í viftu inni í eldhúsi þegar ég leit þangað inn. Það er það fyrsta sem ég sá." segir Jón: "Þá var ég inni í svefnherbergi og synir mínir tveir þar inni af í öðru herbergi."

Jón segir að logað hafi í potti á eldavélinni og ekki ólíklegt að annar sonanna hafi skotist fram og kveikt undir. Eldsupptök séu þó ókunn sem standi. Hann hafi ætlað að slökkva eldinn en hafi fljótlega áttað sig á að það gengi ekki. Hann hafi því hlaupið til drengjanna og borið þá lítt klædda út og því næst hringt í Neyðarlínuna. Hann hafi ætlað aftur inn í húsið til að sækja fatnað á synina en eldurinn hafi magnast upp:

"Það gaus upp mikill svartur reykur eftir að ég var búinn að opna út. Reykurinn varnaði því að ég kæmist aftur inn." Fólk hafi borið að og tekið drengina upp í bíl sinn.

Kona Jóns, Aileen, var í vinnu en kom í snarhasti heim. "Henni var rosalega illa brugðið. Hún vissi ekkert um strákana og sá þá ekki þegar hún kom fyrst heim," segir Jón.

Við slökkvistarfið fóru reykkafarar inn í íbúðina og gekk fljótt og vel að slökkva eldinn, að sögn Reynis: "Eldhúsið er stórskemmt og miklar reykskemmdir eru annars staðar í íbúðinni. Hún er óbúðarhæf."

Jón tók atburðum dagsins af stóískri ró: "Ég hef oft verið hræddur um að þetta gæti gerst því hann hefur oft verið að fikta í tökkunum á eldavélinni og við höfum reynt að passa þetta vel. Svo virðist sem það hafi ekki gengið ef ég giska á rétt eldsupptök." Mokað verður út úr húsinu í dag:

"Húsið verður tæmt og allt dót sent suður og metið. Það verður þrifið og gert upp. Maður er ánægður ef maður kemst inn fyrir jól."

VF-myndir: Þorgils Jónsson / Texti: Fréttablaðið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024