Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bann við einkadansi ekki rætt í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 16. júlí 2002 kl. 22:32

Bann við einkadansi ekki rætt í Reykjanesbæ

Breytingar á lögreglusamþykkt fyrir Reykjanesbæ þar sem bann yrði lagt við einkadansi hafa ekki verið ræddar af meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Dómsmálaráðuneytið staðfesti í dag breytingar á lögreglusamþykktum Reykjavíkur og Akureyrar sem fela m.a. í sér bann við hvers konar einkasýningum á næturklúbbum þar sem heimilt er að sýna nektardans. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er vitnað til álits ríkislögmanns sem telur ólíklegt að bótaskylda kunni að falla á ríkissjóð vegna breytinganna.Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, sagði ekki ólíklegt að málið komi til umræðu í sveitarfélaginu í framhaldi af þeim breytingum sem orðið hafa í Reykjavík og norðan heiða. Yfirvöld hér þyrftu þó ekki að feta sömu braut og breytingarnar á samþykktinni í Reykjavík og á Akureyri væru ekki fordæmisgefandi fyrir önnur sveitarfélög.
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að lögum skv. skal sveitarstjórn skilgreina þau velsæmismörk sem hún telur við hæfi á og við almannafæri, þar með talið á veitingahúsum og næturklúbbum. „Það er ekki dómsmálaráðuneytisins að hrófla við því mati sveitarfélaganna, nema það sé bersýnilega ómálefnalegt, en það á ekki við í þessu máli samkvæmt mati ráðuneytisins og er það stutt áliti ríkislögmanns," segir í tilkynningunni.
Fram kemur að málið hefur verið skoðað með ítarlegum hætti og í kjölfarið var ákveðið að staðfesta breytingarnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024