Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

BAnkarán: Fljótfenginn gróði og spenna
Föstudagur 20. júní 2003 kl. 10:04

BAnkarán: Fljótfenginn gróði og spenna

Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá fangelsismálastofnun, segir að allir sem fremji vopnuð rán fái dóma. Sex slík rán hafa verið framin hérlendis fyrstu sex mánuði ársins. "Það er litið mjög alvarlegum augum þegar fólk beitir vopnum eða ofbeldi til að ná sér í verðmæti," segir Erlendur. Hann segir að þegar dæmt sé í málunum sé tekið tilliti til aldurs, sakaferils, endurtekinna brota og annars slíks. Dómur fyrir verknað eins og vopnað rán geti verið fangelsi í nokkur ár. Samkvæmt almennu hegningarlögunum getur hann verið allt að 16 ár. ,,Enginn hefur meiðst í þessum síðustu ránum, sem betur fer. Afsagaðar haglabyssur eru gjarnan notaðar í ránum erlendis, en þær eru sjaldan eða ekki notaðar hér."

Erlendur segir að umfjöllun í fjölmiðlum geti hugsanlega haft áhrif. Menn heyri um ránin. Vitleysingar sem séu nokkuð siðblindir fari og geri slíkt hið sama til að ná sér í peninga. Í gegnum árin hafi svona komið í kippum, kippurinn sé reyndar orðin nokkuð stór núna. Hann segir að í dag sitji ekki margir inni fyrir vopnað rán. Þeir sem hafi framið rán undanfarið bíði ýmist dóms eða ákæru.

Að mati Erlends er ekki hægt að rekja afbrotin undanfarna mánuði til aukinnar stéttaskiptingar í þjóðfélaginu. ,,Ég held að þessi rán að undanförnu hafi ekki mikið með bil á milli ríkra og fátækra að gera. Eitthvað hefur þetta með fíkniefnaneyslu að gera, en þó held ég að það sé heldur ýkt. Auðvitað er ákveðið samhengi þarna á milli, en ég held að það sé ekki eins mikið og menn vilja vera láta. Margir virðast hins vegar sætta sig við þá skýringu. Ungu mennirnir segjast hafa verið í mikilli neyslu og það á að þýða allt. Ástæða fólks til að gera svona er fljótfenginn gróði og spenna. Margir fá útrás við það, jafnvel kynferðislega útrás," segir Erlendur.

Vísir.is/Fréttablaðið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024