Banaði plastmengun hvalnum á Hvalsnesi?
– Engin sýnileg ummerki um árekstur við báta né veiðarfæri
Til að komast að dánarorsök langreyðar sem rak á land við Nesjar á Hvalsnesi um þar síðustu helgi þarf að fara fram krufning á dýrinu. „Krufningar á hvalshræjum geta verið erfiðar og kostnaðarsamar og tekið mörg ár til að ná upp í nægilegan sýnafjölda,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur Þekkingarseturs Suðurnesja.
Athygli vakti að hvalurinn var mjög magur þar sem hann fannst dauður í fjörunni. Spurningar hafa vaknað um hvort langreyðurin hafi drepist vegna plastmengunar. Sölvi Rúnar segir að hvorki Þekkingarsetur Suðurnesja né Hafrannsóknarstofnun Íslands hafi kíkt í maga hvalsins. „Það þarf ekkert að vera að þetta sé plastmengun en á sama tíma getur það vel verið. Þetta fæst ekki staðfest nema með krufningu“.
Dánarorsök hjá hluta skíðishvala má rekja til plastmengunar í hafinu en það hefur þó ekki verið rannsakað hér við land. „Plast hefur fundist í mjög mörgum dauðum hvölum erlendis þó að það sé ekki endilega megin ástæða dauða þeirra. Plast getur haft óbein áhrif á dauða þeirra svo sem meltingartruflanir sem valda svelti og þar af leiðandi dauða. Sumar tegundir, svo sem búrhvalir og hvalir af ætt Svínhvela, virðast viðkvæmari fyrir plastmengun en aðrir. Líklega er það vegna þess að plastpokar og annað plast líkist fæðu þeirra,“ sagir Sölvi Rúnar í samtali við Víkurfréttir.
Sölvi Rúnar segir plastumræðu og mengun frá mannavöldum vera nauðsynlega umræðu ásamt veiðarfærum sem hafa neikvæð áhrif á flest alla hvalastofna og ein af megin ástæðum hvaladauða af mannavöldum.
„Ég undirstrika þó að það er algjörlega óvíst úr hverju þessi hvalur drapst. Hvali rak á land löngu áður en plast kom til sögunar svo hann hafði leikandi getað verið veikur, ruglaður, slasaður eða gamall og það orsakað þetta mikla svelti. Hann hafði engin sýnileg ummerki um árekstur við báta né veiðarfæri,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja.
Hvalurinn er nú kominn ofar í fjöruna við Nesjar. Landeigendur hafa verið í sambandi við Sandgerðisbæ um að losna við hræið úr fjörunni, enda mun það taka nokkur ár að rotna með tilheyrandi mengun og ólykt á svæðinu en fjörurnar á Hvalsnesi eru vinsælar til útivistar.