Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bálskýli og salernisaðstaða við Seltjörn og Sólbrekkuskóg
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 30. september 2020 kl. 10:25

Bálskýli og salernisaðstaða við Seltjörn og Sólbrekkuskóg

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur fallist á hugmynd um byggingu bálskýlis við Seltjörn og Sólbrekkuskóg og var erindið samþykkt á rafrænum aukafundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í vikunni.

Skógræktarfélag Suðurnesja hefur óskað eftir breytingu á deiliskipulagi Seltjarnar svo útbúa megi lóð fyrir bálskýli og salernisaðstöðu í samræmi við uppdrætti Arkís frá 10. september síðastliðnum. Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin á deiliskipulagi varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bálskýlið er tæplega 92 fermetra mannvirki og í byggingarlýsingu segir að hugmyndin sé að bálskýlið vaxi upp frá skógarbotninum og myndi lágreist skjól „skógarskýlis“ fyrir gesti úr efni skógarins. Skýlið er fellt inn í skógarbotninn og skóginn þannig að það verður hluti af skóginum, þannig á form þess að hvetja gesti og gangandi til útiveru og leikja. Skýlið gefur fjölskyldum, litlum og stórum hópum möuleika á að nýta húsið á fjölbreytilegan hátt allt árið. 

Skógarskýlið og þjónustuhúsið eru ein heild sem mynda skjólgóðan ramma utan um útikennslu og upplýsingamiðlun til gesta. Í þjónustuhúsinu verða tvær snyrtingar. Gert er ráð fyrir að skýlið tengist stígakerfi skógarins og aðkoma að því verði frá þeim. Þá verður aðkoma fatlaðra tryggð.

Efnisnotkun gerir ráð fyrir að nota tré úr skóginum og nota það sem mest óunnið en jafnframt að gefa gestum innsýn í þá fjölmörgu möguleika sem íslensk skógrækt býður upp á. Í bálskýlinu verður svo hlaðinn arinn úr flögugrjóti. Á gólfi verður þétt grús en pallar og stígar verða timburklæddir að hluta, annars lagðir grús og tréspæni.

Teikning af bálskýlinu og salernisaðstöðunni.