Baldur KE fær andlitsupplyftingu
Fiskibáturinn Baldur sem hefur verið sýningargripur við höfnina í Gróf undanfarin ár, fékk óvænt andlitsupplyftingu fyrir Ljósanótt en nokkrir félagar tóku sig til og máluðu hann svo Baldur mun skarta sínu fegursta þegar kemur að þessari stærstu helgi ársins í Reykjanesbæ.
Baldur er fyrir margt merkilegur en hann var fyrsti báturinn hér á landi sem notaði skuttog. Baldur er samofinn útgerðarsögu Keflavíkur, hann var smíðaður í Svíþjóð og kom til landsins árið 1961 og reyndist mikið happafley, fiskaði mikið og aldrei urðu óhöpp á bátnum. Það var útgerðarmaðurinn Ólafur Björnsson sem gerði Baldur út allt til ársins 1986, þegar Nesfiskur í Garði eignaðist hann en þegar honum var lagt árið 2003 fékk Ólafur bátinn aftur til varðveislu. Ólafur gaf Reykjanesbæ bátinn sem hefur verið sýningargripur við höfnina í Gróf í rúm tíu ár. Eitthvað hefur viðhaldi verið ábótavant og því tóku nokkrir félagar sig til og ákváðu að gefa Baldri andlitslyftingu fyrir Ljósanótt.
Félagarnir eru Friðrik Þorbergsson, Gunnar Alexandersson, Arnar Jónsson, Jakob Vagn Guðmundsson, Guðmundur Ingi Aðalsteinsson og Guðmundur Garðarsson. Friðrik sagði að hugmyndin hefði fæðst á laugardags-rúnti fyrir skömmu. „Við félagarnir erum aldnir upp hér í Keflavík og munum eftir því þegar bærinn var útgerðarbær, hann varð það löngu áður en herinn kom hingað. Það voru fiskverkanir hér út um allt og mikið í gangi og við viljum halda þessari sögu hátt á lofti, þessi bátur er góður minnisvarði um hana. Baldur var hins vegar farinn að láta ansi mikið á sjá og í raun farinn að grotna niður og á rúnti um bæinn fæddist þessi hugmynd, að gefa Baldri flotta andlitslyftingu og láta hann líta glæsilega út fyrir Ljósanótt. Við erum að gera þetta í sjálfboðavinnu, okkur er annt um þessa sögu og viljum með þessu leggja okkur að mörkum svo saga útgerðar í Keflavík lifi,“ sagði Friðrik.