Bakslag komið í viðræður Landsnets og Suðurlinda
Bakslag er komið í viðræður Landsnets og sveitarfélaga um nýja háspennulínu til Suðurnesja. Áform um álver í Helguvík og netþjónabú á Vallarsvæðinu eru í uppnámi, og talið brýnt að höggva á hnútinn mjög fljótlega, ef tímaáætlanir eiga að standa. Þetta kemur fram í frétt á visir.is í gær.
„Álver í Helguvík og netþjónabú á Keflavíkurflugvelli eru bæði háð því að Suðurnes verði tengd raforkukerfi landsins með nýrri háspennulínu en einnig telur Landsnet, sem annast raforkuflutninginn, að nýja línu þurfi til að treysta rekstraröryggi fyrir íbúa svæðisins. Viðræður milli Landsnets og Suðurlinda, sem kemur fram fyrir hönd þriggja sveitarfélaga, Voga, Grindavíkur og Hafnarfjarðar, ganga afar hægt og hefur ekkert verið fundað í heilan mánuð. Ágreiningurinn snýst aðallega um hvort leggja eigi línuna í jörð, eins og sveitarfélögin vilja. Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík og stjórnarformaður Suðurlinda, segir bakslag hafa komið í viðræðurnar. Hugmyndir sveitarfélaganna um jarðstrengi hafi ekki fengið þann hljómgrunn sem þau höfðu vonast eftir,“ segir í frétt visi.is.
Haft er eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, aðstoðarfórstjóra Landsnets, að brýnt sé orðið að fá niðurstöðu.
Þá segir ennfremur að Norðurál áformi að hefja álframleiðslu í Helguvík eftir tvö og hálft ár. Sú tímasetning sé hins vegar í uppnámi því áætlað sé að tvö ár taki að leggja nýja raflínu og það verk geti ekki hafist fyrr en línan verði komin í gegnum umhverfismats- og skipulagsferli, sem taki minnst hálft ár.
Mynd: Háspennulínur ofan eða neðan jarðar. Þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Rétt er að taka fram að línurnar á myndinni tengjast ekki fréttinni beint.