Bakaði kökur og styrkti Barnaspítalann um hálfa milljón
„Þetta er það besta sem ég hef gert í lífinu,“ segir verðandi bakarinn Elenora Rós sem vildi gefa til baka
„Þetta er það skemmtilegasta og besta sem ég hef gert í lífinu mínu,“ segir hin sextán ára gamla Elenora Rós sem á dögunum afhenti Barnaspítala Hringsins styrk að upphæð 482 þúsund króna sem hún safnaði á eigin spýtur.
Elenora er bakaranemi við Menntaskólann í Kópavogi en hún byrjaði að baka kökur og selja þær þann 6. desember 2016. „Ég ákvað að gera stórt góðverk áður en ég yrði átján ára. Ég bjó til Facebook-síðu og þetta gekk betur en ég hefði nokkurn tímann geta ímyndað mér. Ég fékk yfirleitt tvær til fjórar pantanir í hverri viku og flestar kökurnar kostuðu á bilinu þrjú til sjö þúsund krónur. Ég lagði mikið upp úr því að hafa þær fallegar og bragðgóðar, en ódýrar,“ segir hún.
Elenora er sjálf með meðfæddan sjúkdóm og hefur því dvalið töluvert á Barnaspítala Hringsins í gegnum tíðina. Vegna þessa vildi hún gefa til baka.
„Það tók mig eitt ár að safna þessum peningi og ég labbaði út af spítalanum með tárin í augunum. Mér finnst Barnaspítalinn svo innilega hlýr staður og ég get ómögulega lýst tilfinningunni þegar ég knúsaði Hringskonur með bros á vör og þær þökkuðu mér fyrir.“
Á Facebook-síðu Barnaspítalans er Elenoru þakkað kærlega fyrir stuðninginn.
Elenora Rós ásamt Hringskonum við afhendingu styrksins.