Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 28. maí 2001 kl. 11:50

Bætt umferðarmenning á Brautinni

Vegagerðin, ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík og á Keflavíkurflugvelli undirrituðu samstarfssamning um bætta umferð á Reykjanesbrautinni þann 10. maí sl.
Markmið samstarfsins er að fækka umferðaróhöppum á Reykjanesbrautinni. Til að ná settu markmiði verður m.a. haldið uppi öflugri löggæslu á Reykjanesbrautinni, stuðlað að því að halda umferðarhraða innan löglegra marka og að vegaxlir verði rétt notaðar.
Í fréttatilkynningu embættanna kemur fram að það sé mat lögreglustjóranna að löggæsla hafi verið mikil á Reykjanesbrautinni undanfarna mánuði, einkum frá því að sameiginlegt átak var gert í þá veru í október síðastliðnum. Þeir telja því að þetta samkomulag auki enn frekar löggæsluna og með virkri og skipulagðri samvinnu verður hægt að nýta mannafla og tæki betur en ella.
Hlutverk Vegagerðarinnar verður að setja upp mæla til þess að mæla umferðarhraða bifreiða á Strandarheiði og í Molduhrauni og víðar eftir því sem tök eru á. Upplýsingar um umferð og hraða verða birtar myndrænt á Netinu. Þessar mælingar gefa möguleika á ýmsum frekari upplýsingum um ástand umferðar eftir því sem kann að verða ákveðið síðar.
Til stendur að gera kort af umferðaróhöppum á umræddum vegi þar sem verður hægt að sjá hvar þau verða, hverskonar óhöpp er um að ræða og hvenær þau verða. Gert er ráð fyrir að þessar upplýsingar verði á tölvutæku formi og birtar á hálfs árs fresti. Einnig verður gert kort af vegaköflum þar sem óhöpp hafa orðið síðustu 5 árin og upplýsinga aflað um umferðarhraða á þessum tíma. Lögreglustjórarnir munu síðan gefa Umferðarráði upplýsingar um starfsemina og árangur hennar þannig að almenningur fái sem réttastar upplýsingar hverju sinni.
Aukið lögreglueftirlit útheimtir aukinn kostnað hjá lögregluembættunum, einkum aukinn kostnað við rekstur lögreglubifreiða. Lögregluembættin hyggjast taka á sig umræddan kostnað fyrst um sinn. Framhald verkefnisins er hins vegar háð því hvort embættin hafa fjárhagslega getu til þess að standa undir þeim aukna kostnaði sem aukið eftirlit útheimtir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024