Bæta þarf aðbúnað í flugstöðinni í almannavarnaástandi
Ítarlega farið yfir ástandið sem skapaðist í desemberóveðrinu á fundi Almannavarna Suðurnesja utan Grindavíkur
Almannavarnir Suðurnesja utan Grindavíkur hafa farið yfir það ástand sem myndaðist í desember 2022 þegar óvenju mikil snjókoma setti samgöngur til og frá, og innan Suðurnesja, svo mikið úr skorðum að bæði varð mikil röskun á flugi en ekki síður myndaðist alvarlegt ástand þar sem hvorki lögregla, slökkvilið né sjúkabílar komust á milli byggðarlaga. Almannavarnarnefndin er sammála um að samþætta þurfi aðgerð sem þessa betur í framtíðinni en unnið hefur verið að úrbótum og margt af þeim komið til framkvæmda nú þegar. Lögð verði áhersla á upplýsingamiðlun, aukið samráð og nýja samninga við verktaka.
Umferð til og frá Sveitarfélaginu Vogum var lokuð í tvo sólarhringa
Gunnar Axelsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga, greinir frá ástandi sem myndaðist í Vogum daganna 17.–20. desember og ályktun bæjarstjórnar sveitarfélagsins. Bæjarstjóri fóru yfir stöðu málsins en viðbrögð Vegagerðarinnar voru góð til að byrja með í upphafi veðursins en verr gekk að ná sambandi við fulltrúa Vegagerðarinnar þegar á leið. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga taldi of mikla áherslu á að koma flugfarþegum til og frá Keflavíkurflugvelli og ekki hefði verið horft til þess að umferð til og frá Sveitarfélaginu Vogum var lokuð í tvo sólarhringa. Það má því segja að almannavarnarástand hefði skapast. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga bókaði m.a. um málið. Einnig kom fram í máli bæjarstjórans að Vegagerðin væri ekki með nægjanlega góðan tækjakost til að halda vegum opnum. Auk þess að bæta mætti upplýsingagjöf til íbúa en misvísandi upplýsingar voru gefnar um opnum vega.
Almannavarnarástand skapaðist í Suðurnesjabæ
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, greinir frá ástandi sem myndaðist í Suðurnesjabæ og ályktun bæjarstjórnar. Bæjarráð Suðurnesjabæjar ályktaði um að almannavarnarástand hefði skapast í Suðurnesjabæ, jafnframt var óskað eftir því að málið yrði tekið upp hjá Almannavarnarnefnd Suðurnesja utan Grindavíkur. Suðurnesjabær var einangraður í fjóra sólarhringa. Senda þyrfti snjómoksturstæki á undan sjúkrabíl og er ljóst að Brunavarnir Suðurnesja hefðu ekki komist í útkall með góðu móti. Moksturstæki frá Vegagerðinni voru ekki á ferðinni í rúma tvo sólarhringa og notað sveitarfélagið eigin tæki til þess að moka vegi sem voru á ábyrgð Vegagerðarinnar. Bæjarstjóri ítrekaði mikilvægi þess að koma réttum upplýsingum á framfæri en ákveðin upplýsingaóreiða hefði verið í gangi.
Bæta þarf samvinnu og samskipti á milli allra aðila
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, greindi á fundinum frá ástandinu sem myndaðist í Reykjanesbæ/Höfnum og tillögum sem hann sendi nefndinni sem skipuð var til að fara yfir málið. Aðstæður sem sköpuðust voru sérstakar sökum þess hversu mikið snjóaði. Auk þess að vera ófært út í Hafnir var ástandið verst á Ásbrú og í Innri-Njarðvík. Þar búa einnig margir starfsmenn sem vinna á Keflavíkurflugvelli og áttu þeir erfitt með að komast til vinnu. Reykjanesbær aðstoðaði Vegagerðina við snjómokstur með því að útvega tæki. Guðlaugur telur mikilvægt að fara fyrr af stað í mokstur. Í máli hans kom fram að bæta þyrfti samvinnu og samskipti á milli allra aðila í framtíðinni til þess að koma í veg fyrir að þessar aðstæður skapist aftur. Skoða þarf hvort hægt sé að tryggja leið starfsmanna innan flugvallarins um Ásbrú í gegnum Silfurhlið, sem er þjónustuhlið við austurhlað flugvallarins, hafa rútuferðir innan vallar og útbúa varabílastæði. Einnig þurfi að skoða hvort að taka þurfi upp harða lokun á helstu stofnbrautum, t.d. á Reykjanesbrautinni.
Atburðurinn hafi mikil áhrif á alla aðila
Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar hjá Isavia, fór yfir rýni vegna rekstrarskerðingar hjá Isavia daganna 17.–19. desember 2022. Alls voru 1.500 manns veðurtepptir í flugstöðinni þessa daga. Flugstöðin var á tímabili farin að gegna hlutverki fjöldahjálparstöðvar. Rýming hennar hófst um kl. 16:20 þann 19. desember en alls fóru 29 rútur til höfuðborgarinnar og lauk flutningum um kl. 01:00. Alls ákváðu 350 manns að verða eftir í flugstöðinni að eigin ósk.
Isavia ákvað að setja af stað rýnikönnun sem gerð var rafrænt en talið var mikilvægt að gera hana meðan atburðurinn var ferskur í huga fólks. Ljóst er að atburðurinn hafði mikil áhrif á alla aðila. Rýnifundir voru einnig með hagaðilum og ytri aðilum 10.–12. janúar 2023.
Niðurstöður Isavia voru m.a. að ekki náðust öll markmið. Bæta þarf aðbúnað í húsinu með viðbúnaðarbrettum fyrir grunnþarfir.
Skoða þarf mannvirki með tilliti til kulda og aðbúnaðar. Teknar voru réttar ákvarðanir um að flytja fólk í burtu, það var gert á réttum tíma en tók of langan tíma. Starfsfólk Isavia var með rétt hugarfar, allir hjálpuðust að í krefjandi aðstæðum. Þjónustuaðilar og flugfélög voru lítið til staðar bæði á gólfi og svo til samráðs og samhæfingar. Samráð virkaði ágætlega í aðdraganda en afleiðingar veðurs voru ekki fyrirséðar. Það vantar betri verkfæri til samhæfingar og skjölunar, s.s. aðgerðagrunn, ferilvöktun á fólki, samræmd fjarskipti – SMS. Upplýsingamiðlun var ábótavant hjá öllum. Það þarf samræmdari nálgun í upplýsingagjöf. Bæta þarf kallkerfi og upplýsingaskjá. Þá voru ytri miðlar Isavia vannýttir.
Ámælisvert að ekki var lögð meiri áhersla á að opna akstursleiðir
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, fór yfir málið frá sjónarhóli B.S. Hann telur ámælisvert að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á að opna akstursleiðir á milli allra byggðarkjarna Suðurnesjum. Stofnleiðir á Suðurnesjum voru ófærar að öllu leyti og hvetur Vegagerðina til þess að endurskoða alla verkferla hjá sér.
Reykjanesbraut beinlínis hættuleg
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði að allar aðgerðir lögreglunnar miðuðust að því að tryggja öryggi íbúa á svæðinu. Hann lagði áherslur á að samskipti allra aðila séu góð og hreinskiptin. Dæmi um það voru t.d. bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þau voru ekki tilbúin til að taka við umferð þegar opnað var fyrir akstur um Reykjanesbrautina að nýju. Jafnframt ítrekaði hann að Reykjanesbrautin væri beinlínis hættuleg í fleiri aðstæðum en þarna skapaðist, t.d. í rigningu.
Ósæmileg viðbrögð almennra borgara
Arnar Steinn Elísson, svæðisstjórnandi hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, sagði að alls hafi verið skráðar 650 hjálparbeiðnir í kerfið hjá aðgerðastjórn. Björgunarsveitir á Suðurnesjum aðstoðuðu við lokun Reykjanesbrautarinnar. Í máli hans kom fram að ein björgunarsveit á Suðurnesjum hefur sagt sig frá verkefni sem þessu, vegna ósæmilegra viðbragða almenna borgara. Búið er að setja upp verkferla með Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um að koma starfsmönnum til og frá vinnu sem og aðstoða við heimahjúkrun. Lagt er til að betra samráð verði í framtíðinni hjá öllum aðilum sem koma að úrlausn í verkefni sem þessu. Hann telur mikilvægt að hljóð og mynd fari saman þegar aðstæður sem þessar skapast.
Vegagerðin endurskoðar verkferla
Fulltrúi Vegagerðarinnar, Árni Gísli Árnason, fór yfir framkomnar úrbótatillögur starfshópsins vegna lokunar Reykjanesbrautarinnar. Starfshópurinn skoðaði lokun brautarinnar 19.–20. desember 2023. Niðurstöðurnar hópsins voru að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir að Reykjanesbrautin lokaðist. Stytta hefði mátt lokunartímann. Miðla hefði mátt betur/örar upplýsingum til almennings. Miðla hefði mátt betur/meiri upplýsingum til samhæfingarstöðvar Almannavarna.
Vegagerðin hefur rýnt vel það sem vel gekk og einnig það sem betur hefði mátt gera. Verið er að endurskoða verkferla og Vegagerðin hefur lokið við að gera þarfagreiningu. Ljóst er að útibú Vegagerðarinnar í Garðabæ var ekki nægjanlega vel búið fjölbreyttum tækjum. Vegagerðin leggur áherslu á gott samstarf á milli aðila og ítrekar að ekki hefði verið hægt að opna leiðina upp í flugstöð á þessum dögum nema með aðstoð frá Reykjanesbæ og Isavia.
Unnið hefur verið að úrbótum og margt af þeim komið til framkvæmda nú þegar. Lögð verði áhersla á upplýsingamiðlun, aukið samráð og nýja samninga við verktaka.
Stærri umbótaverkefni hafa verið skilgreind og hvað þarf að vera til staðar til þess að vera betur í stakk búin að takast á við svona aðstæður aftur (tæki, búnaður, lokanir og fleira). Mörg af þeim verkefnum kalla á aukið fjármagn. Vegagerðin er í sífellu að meta hvernig hægt sé að gera hlutina betur – óveður sem þetta mun koma aftur.
Almannavarnarnefndin er sammála um að samþætta þurfi aðgerð sem þessa betur í framtíðinni. Lagt er til að allir lykilaðilar sveitarfélaganna, lögreglunnar, Isavia, Vegagerðarinnar og Brunavarna Suðurnesja fundi sameiginlega, t.d. í gegnum TEAMS, í aðstæðum sem þessum.