Bæta afgreiðslu og auka þægindi flugfarþega á háannatíma
Isavia og samstarfsaðilar félagsins og velunnarar fögnuðu í sl. viku endurbótum sem gerðar hafa verið á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að bæta afgreiðslu og auka þægindi flugfarþega á háannatíma.
Öll fyrri met í farþegafjölda voru slegin á Keflavíkurflugvelli í sumar en alls fóru rúmlega 1,1 milljón farþega um flugvöllinn í júní, júlí og ágúst og er það aukning um 100 þúsund manns frá því í fyrra. Hlutfallsleg aukning utan háannatímans er umtalsvert meiri og réðst Isavia á liðnum vetri í talsverðar endurbætur til þess að mæta fyrirséðri farþegaaukningu.
Meðal annars var stórum svæðum í suðurbyggingu sem ekki voru hluti af almennu farþegarými breytt í biðsvæði farþega og glæsilega snyrtiaðstöðu. Þá var verslunarsvæði stækkað og endurbætt. Fríhöfnin opnaði nýja og glæsilega 650 fm verslun með áherslu á íslenska hönnun og íslenskar vörur auk annarrar gjafavöru og minjagripa. Nýja verslunin er rekin með svonefndri „búð í búð“ tilhögun í samstarfi við aðrar verslanir í flugstöðinni. Kostnaður við ofangreind verkefni í flugstöðinni ásamt endurbættu umferðarskipulagi, vopnaleit o.fl. er um einn milljarður króna.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson