Bæjayfirvöld í Grindavík hafna fyrningarleið í sjávarútvegi
Bæjaryfirvöld í Grindavík samþykktu í gær bókun á fundi bæjarráðs þar sem því er harðlega hafnað að farin verði það sem nefnt hefur verið fyrningarleið í sjávarútvegi, sem sé „lífæðin og grundvallaratvinnugrein byggðarinnar.“ Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur, sem öll sat fund bæjarráðs í gær, er skipaður fulltrúum Samfylkingar og Framsóknarflokks. Frá þessu er greint í frétt frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna á vef www.liu.is
Í bókuninni segir að fyrningarleiðin sé ekki ásættanleg og að Grindvíkingar hafi oftar en einu sinni verið settir í óvissu vegna umræðu innan stjórnmálaflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Síðan segir í bókuninni:
„Mikilvægt er að skapa ró um sjávarútveg og fiskvinnslu þannig að horfa megi til lengri tíma. Í Grindavík hafa menn lagt sig alla fram um að skapa atvinnu og halda fyrirtækjum gangandi. Það á að vera keppikefli allra að byggja áfram á grunnstoðum sjávarútvegsins. Fiskveiðar og vinnsla hafa verið okkar haldreipi í gegnum tíðina, eins og hefur sýnt sig best í verstu kreppu sem riðið hefur yfir þjóðina. Þess vegna ber að halda kvóta í heimabyggð og sækja fram á við, hvað sem á dynur. Sterk fyrirtæki í Grindavík gagnast öðrum sveitarfélögum, eins og hefur sýnt sig.
Atvinnulífið í Grindavík er með því besta sem gerist á landinu í dag. Bæjaryfirvöld standa umfram allt vörð um hagsmuni bæjarbúa og vara við því að hrykkt verði í þeim styrkum stoðum atvinnulífsins sem sjávarútvegurinn er.“