Bæjaryfirvöld vilja láta loka United Silicon
„Við lítum svo á að þessi verksmiðja sé á síðasta séns,“ segir formaður bæjarráðs
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ vilja láta loka kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík sem fyrst og hafa sent erindi þess efnis til Umhverfisstofnunar. Fulltrúar Umhverfisstofnunar munu funda með bæjarráði næsta fimmtudag og fara yfir stöðu mála varðandi mengun frá verksmiðjunni. Nýlega lágu fyrir niðurstöður mælinga sem sýndu að styrkur arsens í andrúmslofti er mun meiri en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Í matinu er gert ráð fyrir að hæst geti styrkur arsens náð 0,32ng/m3 en mælingar sýna að styrkurinn er á milli 6 til 7 ng/m3.
„Ég tel best að verksmiðjunni verði lokað strax. Það er búin að vera lykt nánast hvern einasta dag undanfarið og það gengur ekki. Það er greinilega eitthvað mikið að við rekstur verksmiðjunnar. Nú er kominn sá tímapunktur að þetta er komið gott,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Bæjaryfirvöld hafa haft þungar áhyggjur af mengun frá verksmiðjunni í marga mánuði, að sögn Friðjóns. „Við höfum verið í miklu sambandi bæði við fulltrúa United Silicon og Umhverfisstofnunar. Í síðustu viku höfðum við svo samband við Umhverfisstofnun þar sem við höfðum áhyggjur af þeirri mengun sem hefur mælst. Þá ítrekuðum við þá skoðun okkar að Umhverfisstofnun taki til sinna ráða. Við lítum svo á að þessi verksmiðja sé á síðasta séns,“ segir hann.
Friðjón segir bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ekki hafa önnur úrræði en að þrýsta á Umhverfisstofnun að grípa inn í málið. Bæjarfélagið útvegi lóðir undir fyrirtæki og uppfylli þau ekki skilyrði séu það eftirlitsstofnanir sem geti svipt þau starfsleyfi eða krafist úrbóta. „Við höfum ekkert vald þar. Það eina sem við getum gert er að þrýsta á um úrbætur og það höfum við gert.“
Á vef Umhverfisstofnunar segir að áfram verði fylgst náið með losun mengunarefna í Helguvík. Mæligilda fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 sé að vænta í lok apríl.