Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ræða við kennara
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ munu heimsækja alla sex grunnskóla bæjarins í vikunni og ræða við kennara um það hvernig best megi haga vinnu við að bæta framkvæmd vinnumats, ná sátt við starfsumhverfi kennara og létta álagi af þeim. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Í bókun með nýjum kjarasamningi er gert ráð fyrir að samningsaðilar vinni sameiginlegan vegvísi að aðgerðaráætlun sem lögð verður fram í janúar. Ríkissáttasemjara verður gerð grein fyrir framgangi bókunar þrisvar sinnum á samningstíma til að tryggja framgang og eftirfylgni verkefnisins.
Á vef Reykjanesbæjar segir að bylting hafi orðið í öllu skólastarfi í Reykjanesbæ á síðustu árum. Nám í lestri og stærðfræði hefjist með skipulögðum hætti í leikskólum sem undirbúa nemendur enn betur fyrir grunnskólann. Útkoman sé betri árangur sem fært hafi grunnskólana í hóp þeirra fremstu á Íslandi. Þessum árangri vilja bæjaryfirvöld alls ekki glata og telja mikilvægt að ná sátt við kennara sína um framangreind atriði.