Bæjarstjórnin vill ekki kísilverið aftur
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á Arion banka að falla frá áformum um endurræsingu kísilversins í Helguvík og hefja viðræður við sveitarfélagið um aðrar og grænni leiðir. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í vikunni.
„Bæjaryfirvöld hafa áður lýst neikvæðri afstöðu sinni til endurræsingar og vilja til samstarfs um aðrar leiðir. Þá liggur það einnig fyrir að stærstur hluti íbúa er því algjörlega mótfallinn að verksmiðjan verði endurræst.
Nýtt mat á umhverfisáhrifum gerir lítið til þess að breyta skoðun bæjaryfirvalda og íbúa sveitarfélagsins. Það er því ljóst að framundan gætu verið harðar langvarandi deilur milli aðila, verði áfram haldið með þessi áform, sem gera ekkert annað en að valda öllum aðilum verulegum skaða,“ segir í bókunni en í síðustu viku kom einnig fram að PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík hafi áhuga á að skoða kaup á verksmiðjuni.
Í umfjöllun Víkurfrétta á bls. 2 er rýnt í álit Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að Stakksberg, dótturfélag Arion banka, hyggur á endurræsingu kísilverksmiðjunnar í Helguvík eftir verulegar endurbætur sem fela m.a. í sér byggingu 52 metra hás skorsteins.