Bæjarstjórnarfundir Reykjanesbæjar færast í Hljómahöll
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar munu funda í Hljómahöll eftir sumarfrí en bæjarstjórnarfundir hafa í nokkur ár farið fram í fundarsal á 3. hæð í Ráðhúsi Reykjanesbæjar. Fyrsti fundurinn á nýja staðnum, salnum Merkinesi, verður 20. ágúst en síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarfrí verður 18. Júní.
Ástæða fyrir flutningi á fundunum er m.a. plássleysi í ráðhúsinu fyrir starfsemina þar. Flutningurinn í Merkines mun gefa kost á því að nýta fundarsalinn undir annað.
Bæjarstjórn hefur fundað á nokkrum stöðum í bæjarfélaginu í gegnum tíðina en oftast þó í ráðhúsinu við Tjarnargötu. Um tíma fóru fundirnir fram í bíósal Duus-safnahúsa og þegar farið er lengra aftur í tíma voru þeir í sal Iðnaðarmannafélagins við Tjarnargötu.

Frá fundi í bæjarstjórn í bíósal Duus-safnahúsa árið 2012.


 
	
				 
					


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				