Bæjarstjórn Voga vill Suðurnesjalínu 2 í jörð
„Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga leggur til að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð, í stað loftlínu eins og aðalvalkostur Landsnets gerir ráð fyrir. Sé litið til aðalskipulags sveitarfélagsins fellur valkostur B, jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, best að því. Bæjarstjórn setur þó þann fyrirvara að sá valkostur verði einungis valinn, að heimild Vegagerðarinnar fáist til að leggja strenginn á þegar raskað land á s.k. veghelgunarsvæði. Sé það ekki gerlegt er það mat bæjarstjórnar að þá skuli frekar valinn valkostur A, jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1, enda fari þá jarðstrengurinn um þegar raskað svæði að stærstum hluta,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga á umsögn um fummatsskýrslu Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2 en bæjarstjórnin fundaði um málið síðdegis í gær.
„Það er mat bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga að hagsmunir samfélagsins á Suðurnesjum séu brýnir og þeir réttlæti að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörð. Bæjarstjórn hvetur stjórnvöld til að líta til þeirra þátta sem nefndir eru í greinargerðinni svo Landsnet fái heimild til að hefjast handa sem fyrst við lagningu Suðurnesjalínu 2 í jörð.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga vill að lokum árétta mikilvægi þess að afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum verði tryggt, sem og að flutningsgetan verði aukin í takt við auknar þarfir ört vaxandi landshluta,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar sem var samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.