Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarstjórn Voga mótmælir vegatollum harðlega
„Það yrði mikil mismunun að íbúar á Reykjanesi muni þurfa að borga vegatolla við það að fara í vinnu,“ segir í ályktun bæjarstjórnar Voga.
Fimmtudagur 23. febrúar 2017 kl. 09:19

Bæjarstjórn Voga mótmælir vegatollum harðlega

- Segja mismunun að íbúar á Suðurnesjum þurfi að greiða tolla við að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið

Bæjarstjórn Voga samþykkti samhljóða á fundi sínum í gærkvöld að mótmæla harðlega fyrirhuguðum vegatollum á Reykjanesbraut. Bæjarstjórnin sendi frá sér ályktun um málið og í henni segir meðal annars að meirihluti íbúa sveitarfélagsins sæki vinnu bæði á höfuðborgarsvæðið og til annarra sveitarfélaga á Reykjanesi og því yrði mikil mismunun að íbúar á Ryekjanesi muni þurfa að borga vegatolla við það að fara til vinnu en ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vinna á höfuðborgarsvæðinu.

Ályktunin bæjarstjórnar Voga er eftirfarandi:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga mótmælir harðlega fyrirhuguðum aðgerðum samgönguráðherra að leggja á vegatolla á Reykjanesbraut og aðrar stoðbrautir. Meirihluti íbúa Sveitarfélagsins Voga sækir vinnu bæði á höfuðborgarsvæðið og einnig til annarra sveitarfélaga á Reykjanesi. Það yrði mikil mismunun að íbúar á Reykjanesi muni þurfa að borga vegatolla við það að fara í vinnu en ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vinna á höfuðborgarsvæðinu. Það að rukka fólk um tolla sem sækir sína vinnu til að borga skatt til samfélagsins er ekki líðandi og gengur gegn jafnræði íbúa. Búið er að tvöfalda Reykjanesbraut í landi Voga og mótmælir bæjarstjórn Sveitarfélagsins því alfarið að íbúar þess þurfi að borga vegaframkvæmdir í öðrum landshlutum. Nóg er borgað í dag í formi eldsneytisgjalds og bifreiðagjalda. Rétt er að benda samgönguráðherra á að Reykjanesbraut er fjölfarnasti vegur utan þéttbýlis og jafnframt hafa íbúar ekki annan raunhæfan valkost til að komast inn á höfuðborgarsvæðið og væru því nauðbeygðir til að greiða boðaðan vegtoll.

Einnig er vakin sérstök athygli á að á hinum Norðurlöndunum er veittur skattaafsláttur til þeirra sem sækja atvinnu um langan veg til jöfnunar á ferðakostnaði. Hér á Íslandi hefur ríkið hins vegar haft þá sem búa fjarri vinnustað sínum að féþúfu og nú er áformað að bæta enn við þann kostnað og auka á ójöfnuðinn.