Bæjarstjórn Voga áhugasöm um kaup á Sólheimum
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt samhljóða tillögu þess efnis að kannað verði með kaup á fasteigninni Hafnargötu 15 í Vogum, sem nú er til sölu. Tillagan, sem Jóngeir H. Hlinason bæjarfulltrúi L-listans lagði fram, hefur það að markmiði að húsið verði nýtt sem fræðasetur og menningarmiðstöð, ásamt því að þar geti nýráðinn menningarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogum haft aðstöðu sína. Bergur Álfþórsson, bæjarfulltrúi E-listans og formaður bæjarráðs, lagði til að málinu verði vísað til umfjöllunar í bæjarráði.
Húsið Sólheimar stendur að Hafnargötu 15 í Vogum. Húsið stendur í jaðri Aragerðis sem er skjólgott útivistarsvæði bæjarbúa í Vogum við hlið íþróttamiðstöðvarinnar. Á fasteignavef má sjá að húsið er í dag til sölu fyrir 39,9 milljónir króna en eignin er 172,9 fermetrar og byggð árið 1930.