Bæjarstjórn vill Tækniháskóla í Reykjanesbæ
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á menntamálaráðherra og stjórnendur Tækniháskóla Íslands að skoða vel þann möguleika að Tækniháskóli Íslands verði staðsettur í Reykjanesbæ. Í áskoruninni kemur fram að á Suðurnesjum sé nægt landrými og að þar séu öflug fyrirtæki, s.s. Hitaveita Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, auk alþjóðaflugvallar og stórra verkefna á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins lagði fram áskorunina á bæjarstjórnarfundi í gær og var áskorunin sett fram í nafni allra flokka.
Áskorun
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ráðherra menntamála og stjórnendur Tækniháskóla Íslands að huga vel að þeim kosti sem Reykjanesbær býður upp á gagnvart staðsetningu og uppbyggingu Tækniháskóla Íslands.
Á Suðurnesjum er nægt landrými. Þar eru einnig mörg öflug fyrirtæki og stofnanir sem gætu talist heppilegir samstarfsaðilar skólans s.s. Hitaveita Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Auk þess er alþjóðaflugvöllur í næsta nágrenni og ýmis stór verkefni í farvatninu t.d. í orkugeiranum og á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er því sannfærð um að Reykjanesbær sé mjög vænlegur kostur sem framtíðarstaður fyrir Tækniháskóla Íslands.