Bæjarstjórn samþykkir breytt deiliskipulag í Helguvík
- tveir bæjarfulltrúar meirihlutans sátu hjá
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt breytingar á deiliskipulagi fyrir lóð Thorsil í Helguvík. Breytingar á deiliskipulaginu voru samþykktar með níu atkvæðum í bæjarstjórn á þriðjudagskvöld en tveir bæjarfulltrúar meirihlutans, Kolbrún Jóna Pétursdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Kolbrún Jóna gerði grein fyrir hjásetu sinni í bókun: „Ég hef lengi verið ósátt við ákvörðun fyrrverandi bæjarstjórnar að setja mengandi iðnað á svæði rétt um kílómetra við íbúabyggð.
Ég vil að íbúar fái að njóta vafans sem er töluverður. Þegar ákvarðað er hvort mengunin muni verða innan eða utan marka er byggt á spám sem óvíst er hvort gangi eftir enda mæla eftirlitsstofnanir með að svæðið verði vaktað þegar verksmiðjur hefja störf“.
Um 300 athugasemdir bárust vegna breytingar á deiliskipulaginu í Helguvík. Niðurstaða Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar er sú að fyrirhuguð stóriðja í Helguvík muni vera innan þeirra mengunarmarka sem krafist er í lögum, reglum og starfsleyfum. Ráðið telur einnig að deiliskipulagsbreytingin samræmist aðalskipulagi Reykjanesbæjar.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar mun setja skýra skilmála um vöktun og mengunarvarnir í greinargerð með deiliskipulaginu og leitast þannig við að tryggja að framtíðarstarfsemi í Helguvík muni standast þær kröfur sem gerðar eru til stóriðju í nálægð við íbúabyggð.
Tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík verður auglýst á tímabilinu 28. maí til 25. júní. Á fundi bæjarstjórnar á þriðjudagskvöld kom fram að Umhverfisstofnun mun halda opinn kynningarfund um tillögu sína.
Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi, sagði á fundi bæjarstjórnar að málið væri allt vandlega yfirfarið af umhverfis- og skipulagsráði þannig að sómi væri af. Hann sagðist fylgjandi framkvæmdinni í Helguvík og að íbúar Reykjanesbæjar hafi af henni hagsmuni. Allir flokkar sem boðið hafi fram til síðustu bæjarstjórnarkosninga í Reykjanesbæ hafi haft þessi atvinnutækifæri í Helguvík á stefnuskrá sinni. Það hafi öllum verið ljóst að það hafi verið vilji til að ráðast í þessa atvinnuuppbyggingu í Helguvík.
Guðný Birna Guðmundsdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna um deiliskipulagið í Helguvík. Hún sagðist á fundinum hafa áhyggjur af mengun en á sama tíma væri erfitt að neita fyrirtæki inn í sveitarfélagið og tekjum fyrir svo til gjaldþrota bæ. Hún endaði á því að segja að taka ætti stefnuna á ferðamannaiðnað í stað stóriðju í Reykjanesbæ.
Í fréttatilkynningu frá Thorsil til fjölmiðla í síðustu viku segir að Kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík mun veita á annað hundrað manns örugg og vel launuð störf við iðnframleiðslu og hafa jákvæð áhrif á rekstur Reykjanesbæjar vegna beinna og óbeinna tekna sem skapast vegna starfseminnar. Þannig er gert ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins og Helguvíkurhafnar vegna starfsemi Thorsil verði yfir 700 milljónum króna á ári fyrstu tíu árin.