Bæjarstjórn RNB: Sameiginleg bókun vegna álvers
Það gerist ekki oft að gjörvöll bæjarstjórn Reykjanesbæjar bóki sameiginlega um ákveðin málefni en það gerðist þó á fundi hennar á þriðjudaginn. Reyndar var bókað sameiginlega í tveimur málum, annars vegar vegna álvers í Helguvík og hins vegar vegna málefna HSS,
Bókunin vegna álversins er beint til yfirvalda en í henni leggur bæjarstjórnin þunga áherslu á lokið verði sem fyrst við endurskoðun álversframkvæmda og ríkisstjórnin sýni verkefninu fullan stuðning.
Bókunin er svohljóðandi:
„Bókun vegna álverksframkvæmda í Helguvík.
Í ljósi efnahagsástands og yfir eitt þúsund íbúa á Suðurnesjum sem þegar eru skráðir atvinnulausir, leggur bæjarstjórn Reykjanesbæjar þunga áherslu á að þeim þáttum sem enn er ólokið við endurskoðun álversframkvæmda í Helguvík verði flýtt sem kostur er.
Miðað við fyrirliggjandi hugmyndir skapast yfir 2000 störf við byggingu álvers, virkjanir og línulagnir.
Verktíminn gæti staðið sleitulaust í 5 ár frá og með næsta ári.
Sú stækkun sem rædd hefur verið er bundin því að þegar að henni kemur liggi fyrir jákvætt umhverfismat og að öllum lagaskyldum og reglum hafi verið framfylgt. Enginn ætlast til undantekninga frá því. Hins vegar er afar brýnt að ríkisstjórnin samþykki sambærilega samninga að baki álveri í Helguvík og gert hefur verið um aðrar álversframkvæmdir.
Komið hefur fram að álver í Helguvík kallar á 300 milljarða kr. fjárfestingu inn í landið.
Þegar framleiðsla hefst skapast 700 varanleg, vel launuð störf og gríðarlegar gjaldeyristekjur.
Bæjarstjórn treystir á að ríkisstjórnin sýni verkefninu fullan stuðning á mjög viðkvæmum tíma þess.“